Skoðun

Þetta reddast ekki

Steinunn Bergmann og Þóra Leósdóttir skrifa

Heilbrigðisstéttir hafa varað við því árum saman að stærsta auðlind heilbrigðiskerfisins, starfsfólkið, fari þverrandi. Talað hefur verið fyrir daufum eyrum og nýafstaðinn heimsfaraldur hefur furðu litlu breytt hvað það varðar. Þá er mikilvægt að minna á að það er ekki heilbrigðiskerfinu sjálfu að þakka hversu vel Ísland kom út úr faraldrinum heldur fólkinu sem þar starfar. Fyrir okkur sem þekkjum til afhjúpaði heimsfaraldurinn hversu vanfjármagnað þetta mikilvæga kerfi er, en sýndi líka glögglega hversu gott fagfólk vinnur við heilbrigðis- og félagsþjónustu í landinu. Staðreyndin er að mönnunar- og nýliðunarvandi er og hefur verið gríðarlegt vandamál. Það er almennt viðurkennt að bæta þurfi laun og starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks til muna til að fá fleiri til starfa nú og til framtíðar.

Velferðarkreppa

Vandinn er margþættur og kerfisbundinn. Íslendingar verja minna fé í heilbrigðismál en hin Norðurlöndin og raunar minna en OECD ríkin gerðu að meðaltali árið 2019. Það eru ýmsar ástæður fyrir því. Til að mynda eru fleiri í hlutastörfum hér á landi auk þess sem skortur er á sérfræðingum í ákveðnum heilbrigðisgreinum. Heilbrigðiskerfið var komið í krísu fyrir heimsfaraldurinn hvað varðar mönnun en það vandamál hefur einungis vaxið með álaginu sem farsóttinni fylgdi. Skortur á heilbrigðisstarfsfólki mun aukast á næstu árum og því sjáum við ekki fyrir endann á velferðarkreppunni. Í fyrra voru íbúar landsins ríflega 368 þúsund en samkvæmt miðspá Hagstofu Íslands 2021 verða íbúarnir 429 þúsund árið 2035, sem samsvarar 16,4% fólksfjölgun. Ef hlutfall heilbrigðisstarfsfólks á móti íbúum ætti að haldast það sama þyrfti heilbrigðisstarfsfólki að fjölga um sama hlutfall. Á hinn bóginn er aldurssamsetning þjóðarinnar að breytast. Hlutfall 65 ára og eldri mun fara úr 14,7% af mannfjölda 2021 í 18,4% árið 2035, sem er fjölgun um 25 þúsund manns. Þetta er einmitt sá aldurshópur sem þarf hvað mest á heilbrigðis- og félagsþjónustu að halda.

Skakkt virðismat

Óleiðréttur kynbundinn launamunur hér á landi mældist 13,9% árið 2020. Munur á atvinnutekjum karla og kvenna var heilt yfir 25,5% sama ár samkvæmt Hagstofu Íslands. Ástæðuna fyrir launamun kynjanna má meðal annars finna í kynskiptum vinnumarkaði og skökku virðismati á störfum kvenna miðað við hefðbundin karlastörf. BHM er bandalag 27 aðildarfélaga. Átta þeirra eru fag- og stéttarfélög háskólamenntaðra sérfræðinga á heilbrigðissviði. Þessar fagstéttir eru alla jafna með fjögurra til sex ára háskólanám að baki og þurfa starfsleyfi frá Embætti landlæknis til að mega starfa hér á landi. Flestar sinna þær störfum á opinberum vinnumarkaði og eru svokallaðar einkeypisstéttir sem þýðir að launasetning þeirra lýtur sjaldnast lögmálum samkeppninnar. Þar með er launasetning háskólamenntaðra á opinberum vinnumarkaði hvað lægst hjá heilbrigðisstéttum, þeim sem sinna menntun komandi kynslóða og fagstéttum í menningarstarfsemi. Meðaltal dagvinnulauna BHM fólks hjá ríkinu er um 760 þúsund krónur, en meðaltalið er dregið niður af þessum félögum heilbrigðisstétta. Þegar meðallaun ólíkra fagstétta eru skoðuð nánar sést að þau eru lægst þar sem konur eru í miklum meirihluta eða á bilinu 650 – 770 þúsund krónur. Þegar meðallaun annarra hópa háskólamenntaðra sérfræðinga eru könnuð, svo sem þeim sem starfa við fjármál og rekstur, lögfræði og stjórnsýslu má sjá meðallaun á bilinu 837 – 846 þúsund krónur. Virðismat starfa fer nefnilega enn eftir því hvers kyns meirihluti starfsfólks er og hvernig hefð er fyrir því að starfið sé launað.

Haldbært heilbrigðiskerfi

Á Heilbrigðisþingi síðastliðið haust kom fram að árið 2017 voru 5,3 vinnandi á hvern aldraðan einstakling. Ef fram heldur sem horfir verða þau aðeins 3,0 árið 2050. Það er því augljóst að velferðarkerfið hér á landi er engan veginn haldbært. Það þarf að fjárfesta í heilbrigðis- og félagsþjónustu sem snýst um að efla lýðheilsu, forvarnir og endurhæfingu þannig að fólk þurfi síður á þriðja stigs þjónustu að halda. Ásamt því blasir við að fjölga þarf fagmenntuðu heilbrigðisstarfsfólki til muna nú þegar. Þörf er á markvissum aðgerðum til að leiðrétta launasetningu og bæta starfsumhverfi heilbrigðisstétta hjá stofnunum ríkisins og víðar á opinberum vinnumarkaði. Þannig er hægt að laða fleira ungt fólk til menntunar og starfa í heilbrigðisgreinum. Hægt er að nefna aðgerðir stjórnvalda í menntamálum frá 2019 sem hafa gefið góða raun. Þá var farið í átaksverkefni um nýliðun í kennarastétt sem leiddi til verulegrar fjölgunar í hópi útskrifaðra kennara. Gera þarf úttekt á nýliðunar- og mönnunarvanda í heilbrigðiskerfinu svo unnt sé að byggja mannaflaspár á áreiðanlegum gögnum. Þetta snýst ekki eingöngu um skort á læknum, hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum til að sinna nauðsynlegri þjónustu á sjúkrahúsum og innan heilsugæslu. Viðvarandi mönnunar- og nýliðunarvandi hefur verið þekktur árum saman hjá flestum heilbrigðisstéttum. Vandinn leysist ekki að sjálfu sér. Aðgerða er þörf – Þetta reddast ekki!

Höfundar eru formenn Félagsráðgjafafélags Íslands og Iðjuþjálfafélags Íslands í BHM.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×