Handbolti

Skítsama um markakóngstitilinn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Mathias Gidsel skoraði mest allra á HM.
Mathias Gidsel skoraði mest allra á HM. getty/Michael Campanella

Dananum Mathias Gidsel var slétt sama þótt hann hafi orðið markakóngur heimsmeistaramótsins í handbolta 2023. 

Gidsel skoraði sex mörk í úrslitaleik HM í gær þar sem Danmörk sigraði Frakkland, 29-34. Hann skoraði alls sextíu mörk á HM, fleiri en nokkur annar.

Markakóngstitilinn var Gidsel þó ekki ofarlega í huga eftir úrslitaleikinn í Stokkhólmi.

„Mér er skítsama,“ sagði Gidsel við danska fjölmiðla í leikslok. 

„Þegar ég stend hér með heimsmeistarabikarinn er það eina sem ég hugsa um að ég spila í besta landsliði heims. Ég er með bestu leikmenn heims í kringum mig. Það var sennilega auðvelt að skora í þessu liði svo það skiptir ekki máli.“

Auk þess að vera markakóngur HM var Gidsel valinn besti leikmaður mótsins. Hann kvaðst stoltur af því að vera hluti af fyrsta liðinu sem vinnur HM þrisvar sinnum í röð.

„Ég fæ gæsahúð því við höfum afrekað eitthvað sem enginn annar hefur afrekað. Það var talsverð pressa á okkur en við vissum að við værum færir um að gera þetta. Það hafa verið mörg góð lið en aldrei unnið þrisvar sinnum í röð. Við ættum að vera mjög stoltir af sjálfum okkur,“ sagði Gidsel.
Fleiri fréttir

Sjá meira


×