Þá gagnrýnir hún að ríkissáttarsemjari hafi ekki dregið tillögu sína til baka þrátt fyrir hvatningu til þess en Efling hefur neitað að afhenda kjörskrá til þess að framkvæma megi atkvæðagreiðslu um tillöguna.
„Þrátt fyrir augljósa lagalega annmarka, skýrar vísbendingar um hlutdrægni, stórkostlega skert traust verkalýðshreyfingarinnar á embætti ríkissáttasemjara og fjölmargar áskoranir um að embættið dragi svonefnda miðlunartillögu sína til baka hefur embættið ekki gert það, heldur þvert á móti aukið á forherðingu sína,“ skrifar Sólveig.
Hún segir það hafa komið berlega í ljós á föstudag þegar ríkissáttasemjari óskaði eftir því við Héraðsdóm Reykjavíkur að birta Eflingu fyrirkall þar sem krafist er afhendingar á félagatali Eflingar. Sólveig segir að fyrir slíku séu ekki lagalegar heimildir, eins og félagið hafi lýst í samskiptum við ríkissáttasemjara.
„Í ljósi pólitískrar og stjórnsýslulegrar ábyrgðar þinnar á framlagningu ríkissáttasemjara á svokallaðri miðlunartillögu, svo og á tilhæfulausri kröfu embættisins um afhendingu gagna úr félagaskrá Eflingar, geri ég kröfu um að fá áheyrn þína án tafar,“ skrifar Sólveig og ávarpar þar Guðmund Inga Guðbrandsson, vinnumarkaðsráðherra.
Hún hefur óskað eftir fundi með ráðherra á mánudag en þann dag mun héraðsdómur taka beiðni ríkissáttasemjara fyrir og niðurstaða mun liggja fyrir í atkvæðagreiðslu Eflingarfélaga á Íslandshótelum um verkfallsboð.
„Ég undirstrika við þig að um er að ræða grafalvarlegt fordæmisgefandi mál sem snýr að lögmæti stofnana aðila vinnumarkaðarins, grundvallarréttindum vinnandi fólks og því trausti sem verkafólki verður unnt að bera til opinbers ramma vinnumarkaðsmála á Íslandi til framtíðar,“ skrifar Sólveig.
„Ég bið þig að vanmeta ekki þann þunga sem Efling - stéttarfélag mun fyrir sitt leyti setja í viðbrögð vegna þessa máls og eftir atvikum beina að þeim stofnunum hins opinbera sem á því bera ábyrgð. Því höfða ég til ábyrgðar þinnar sem ráðherra vinnumarkaðsmála að verða við ósk minni um fund án vífilengja.“
Bréf Sólveigar má sjá í heild sinni í færslunni hér að neðan.