Handbolti

Samúel: Kom mér á óvart að Sara hafi farið í Fram þar sem við vorum ekki að reyna losa okkur við hana

Andri Már Eggertsson skrifar
Samúel Ívar Árnason, þjálfari HK, var svekktur eftir leik.
Samúel Ívar Árnason, þjálfari HK, var svekktur eftir leik. Vísir/Vilhelm

Samúel Ívar Árnason, þjálfari HK, var afar svekktur eftir ellefu marka tap gegn Haukum á heimavelli í Olís deild kvenna í handbolta, lokatölur 21-32. HK var aðeins með tólf leikmenn á skýrslu og Samúel var ekki bjartsýnn á að HK myndi styrkja hópinn. 

„Þetta var allt of stórt tap. Við lentum í meiðslum í miðjum leik og þurftum að breyta frá því sem við undirbjuggum. Það var erfitt að fá flot á boltann sóknarlega og árásirnar voru ekki góðar,“ sagði Samúel Ívar og bætti við að HK muni læra af þessu tapi.

HK byrjaði leikinn afar illa og gerði aðeins tvö mörk á fyrstu fimmtán mínútunum. Þá gengu Haukar á lagið og komust sjö mörkum yfir.

„Við komumst ekki framhjá þeim og vorum ekki að velja réttu augnablikin. Ég þurfti að breyta liðinu mikið þegar við lentum í meiðslum í miðjum leik og þá þurftu aðrir leikmenn að spila aðrar stöðu en venjulega.“

HK var aðeins með tólf leikmenn á skýrslu í dag. Samúel var spurður hvort HK muni styrkja liðið áður en félagaskiptaglugganum lokar og hvort hann hafi verið sáttur með að Sara Katrín Gunnarsdóttir hafi farið í Fram. 

„Það er ekki mitt að svara hvort við munum styrkja okkur. Ég ræð litlu um það. Ef það gerist þá yrði það kærkomið fyrir hópinn en ef ekki þá mun ég reyna mitt besta til að hjálpa þessum stelpum að taka næsta skref.“

„Það kom mér á óvart að Sara Katrín væri lánuð í Fram. Þið þurfið að spyrja hana hvers vegna það gerðist þar sem við vorum ekki að reyna losa okkur við hana,“ sagði Samúel Ívar Árnason eftir leik. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×