Skoðun

Upp­lýsinga­gjöf í sjálf­bærni

Hildur Tryggvadóttir Flóvenz skrifar

Undanfarin misseri hefur aukin umræða verið um sjálfbærnitengda upplýsingagjöf. Hér á landi er nokkur fjöldi fyrirtækja skyldugur samkvæmt lögum að veita sjálfbærni upplýsingar. Þá hefur Evrópusambandið samþykkt ný lög um upplýsingagjöf í sjálfbærni sem munu verða leidd í lög hér á landi, þó enn sé ekki ljóst hvenær það verður. Löggjöfin mun fyrst ná til stærri fyrirtækja en með tímanum munu flest fyrirtæki falla undir lögin og verða þá skyldug að veita upplýsingar um sjálfbærni.

Mörg fyrirtæki velta því fyrir sér hvernig nálgast eiga upplýsingagjöf í sjálfbærni. Það eru til ýmsar leiðbeiningar, viðmið og staðlar sem hægt er að fara eftir. Nýrri löggjöf Evrópusambandsins mun einnig fylgja staðall um hvernig veita skuli upplýsingarnar auk þess sem unnið er að því víðar í heiminum að samræma og fækka stöðlum og leiðbeiningum um upplýsingagjöf í sjálfbærni svo auðveldara sé að bera saman upplýsingar og koma í veg fyrir grænþvott.

Þrátt fyrir að það fyrirtæki okkar sé ekki enn skylt samkvæmt lögum að veita sjálfbærniupplýsingar er gott að huga sem fyrst að upplýsingagjöfinni. Það að veita upplýsingar er í raun lokaskrefið í sjálfbærnimálunum okkar en ekki upphafspunktur. Kröfur um að upplýsa um sjálfbærni eru að aukast ásamt því að skýra betur hvaða upplýsingar eigi að veita. Ekki verður hægt að upplýsa eingöngu um jákvæð áhrif okkar heldur munum við líka þurfa að upplýsa um neikvæð áhrif.

Til þess að geta veitt áreiðanlegar og samanburðarhæfar upplýsingar er mikilvægt að huga vel að grunninum. Þess vegna er mikilvægt að byrja á byrjunin og fara í gegnum nokkur skref áður en við dembum okkur í sjálfbærnimáli. Í fyrsta lagi er alltaf best að byrja á því að taka stöðuna á því hvar við stöndum í sjálfbærnimálum. Við getum spurt okkur hversu vel við þekkjum til þessara mála, hvaða kröfur eru gerðar til fyrirtækis okkar bæði lagalegar og frá hagaðilum okkar og skoðað hvað við erum þegar að gera. Í öðru lagi er mikilvægt fyrir okkur að finna út hvaða sjálfbærni þætti rekstur okkar hefur mest áhrif á, bæði jákvæð og neikvæð, og hvernig sjálfbærni hefur áhrif á reksturinn okkar. Þetta er það sem oftast er kölluð mikilvægisgreining. Í þriðja lagi er svo gott að ákveða hvernig fyrirtæki við viljum þegar kemur að sjálfbærni. Viljum við fyrst og fremst tryggja að við förum eftir öllum lögum og reglum eða viljum við vera leiðandi á sviði sjálfbærni eða eitthvað þar á milli?

Þegar við höfum farið í gegnum þessi skref getum við farið að vinna frekar í sjálfbærnimálunum. Gott er að setja sér stefnu með skýrum markmiðum og mælikvörðum sem mæla árangur okkar við að ná markmiðum sem við höfum sett. Það er mikilvægt hér að hugsa sjálfbærni ekki sem stakt verkefni heldur flétta hana inn í reksturinn og almenna stefnu fyrirtækisins. Svo, til að hjálpa okkur í átt að markmiðunum, er gott að gera aðgerðaráætlun til að vinna eftir. Þegar við erum komin með grunninn, vitum hvert við stefnum og erum búin að skilgreina mælikvarða og aðgerðir er mun auðveldara að vinna upplýsingagjöfina sama hvaða leiðbeiningar, viðmið eða staðla við notum eða hvaða lagalegu upplýsingakröfur verða settar á fyrirtækið okkar í framtíðinni.

Á Janúarráðstefnu Festu sem er haldin á morgun, fimmtudaginn 26. janúar, verða í boði þrjár umræðustofur. Ein þeirra mun fjalla um komandi breytingar á kröfum um sjálfbærniupplýsingagjöf fyrirtækja þar sem sérfræðingar á þessu sviði munu svara spurningum og ræða það helsta sem viðkemur þessum málum.

Hinar tvær munu fjalla um lagabreytingar í tengslum við sjálfbærni og hin um sjálfbæra nýsköpun og hringrás.

Höfundur er Manager í sjálfbærniteymi KPMG.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.