Handbolti

Sænskur sérfræðingur: Meiri breidd í sænska liðinu

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jim Gottfridsson er helsta stjarna sænska liðsins og hann þarf að stöðva.
Jim Gottfridsson er helsta stjarna sænska liðsins og hann þarf að stöðva. vísir/getty

Blaðamaðurinn Johan Flinck hjá Aftonbladet er helsti handboltapenni Svía og hann segir að það sé meiri pressa á Íslendingum en Svíum í kvöld.

„Eftir að hafa séð Svía gegn Ungverjum þá er ég bjartsýnni á sænskan sigur. Ég myndi segja að það séu 60 prósent líkur á að Svíar vinni leikinn en fyrir viku hefði ég sagt að möguleikarnir væru jafnir,“ segir Flinck en hann var eðlilega hrifinn af því hvernig Svíarnir keyrðu yfir Ungverja á lokakafla leiksins.

„Íslenska byrjunarliðið er jafn sterkt því sænska en ég tel Svía hafa meiri breidd. Þeir keyra hratt, hafa skipt spiltímanum vel og eru ferskir. Ég veit að íslenska liðið er líka ferskt eftir síðustu tvo leiki.“

Þó svo Svíar séu á heimavelli þá er Flinck á því að pressan sé öll á Íslandi.

„Svíar vita að þó svo þeir tapi þá hafa þeir annan séns gegn Portúgal. Ísland er ekki í svo góðri stöðu því ef Ísland tapar þá þarf liðið að treysta á hagstæð úrslit annars staðar. Ég held að þetti verði frábær leikur þar sem úrslit ráðast á lokametrunum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×