Umfjöllun: Ísland - Ungverjaland 28-30 | Ungverjagrýlan lifir enn

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Stuðningsmenn Íslands fjölmenntu en urðu vitni af hryllilegum endakafla.
Stuðningsmenn Íslands fjölmenntu en urðu vitni af hryllilegum endakafla. Vísir/Vilhelm

Íslenska karlalandsliðið í handbolta spilaði rassinn all svakalega úr buxunum þegar það tapaði fyrir Ungverjalandi, 28-30, í öðrum leik sínum í D-riðli á HM í handbolta.

Íslendingar voru miklu sterkari lengst af leiks, voru fimm mörkum yfir í hálfleik, 17-12, og sex mörkum yfir, 25-19, þegar átján mínútur voru til leiksloka. En þessar síðustu átján mínútur unnu Ungverjar, 11-3, og leikinn, 28-30.

Allt sem gat farið úrskeiðis fór úrskeiðis. Vörnin var slök í seinni hálfleik og markvarslan hvarf sömuleiðis. Þá tapaði liðið boltanum alltof oft í seinni hálfleik og fór síðan að klikka á dauðafærum undir lok leiksins eftir að hafa nánast ekki klúðrað skoti framan af leik.

Útkeyrðir

Þar hafði þreyta eflaust sitt að segja en nokkrir lykilmenn íslenska liðið virtust hreinlega komnir af fótum fram þrátt fyrir að þetta væri aðeins annar leikur mótsins. Guðmundur Guðmundsson er kominn tuttugu ár aftur í tímann, spilar bara á níu útileikmönnum og það kom heldur betur í bakið á honum í kvöld.

Bjarki Már Elísson var markahæstur í íslenska liðinu með níu mörk og Ómar Ingi Magnússon skoraði sjö. Elliði Snær Viðarsson skoraði fjögur og Sigvaldi Guðjónsson og Aron Pálmarsson voru með þrjú mörk hvor. Fyrirliðinn var lélegur annan leikinn í röð og hefur ekki enn stimplað sig til leiks á mótinu, allavega í sókninni. Gísli Þorgeir Kristjánsson á einnig mikið inni.

Tapið er enginn heimsendir en rýrir möguleika Íslands á að komast í átta liða úrslit verulega. Næsti leikur er gegn Suður-Kóreu á mánudaginn.

Dúndur fyrri hálfleikur

Bjarki Már gaf tóninn með því að skora fyrstu þrjú mörk leiksins, tvö úr hraðaupphlaupi og eitt eftir hraða miðju. Ungverjar voru þó fljótir að ná áttum og eins og við var búist reyndist Bence Bánhidi okkar mönnum erfiður.

Jafnræði var með liðunum framan af fyrri hálfleik og á 14. mínútu jafnaði Zoltán Szita í 8-8. Þá kom frábær kafli hjá íslenska liðinu sem skoraði fimm mörk í röð og náði góðri forystu, 13-8.

Íslenska sóknin gekk frábærlega í fyrri hálfleik. Okkar menn teygðu vel á ungversku vörninni og opnuðu hornin fyrir Bjarka Má og Sigvalda sem skoruðu samtals átta mörk í fyrri hálfleik.

Bjarki Már kórónaði frábæran fyrri hálfleik sinn með því að skora síðasta mark hans og Íslendingar héldu til búningsherbergja með fimm marka forystu, 17-12.

Allt í lagi framan af

Íslenska liðið hélt uppteknum hætti framan af seinni hálfleik. Vörnin varð hins vegar lekari en það gerði ekki til því sóknin var áfram góð.

Maté Lékai minnkaði muninn í 23-19 en Íslendingar svöruðu með tveimur mörkum í röð og komust í 25-19.

Ungverjar héldu hins vegar alltaf áfram og minnkuðu muninn jafnt og þétt. Skyttur þeirra voru öflugar og línuspilið skilvirkt að venju. En þegar sjö mínútur voru eftir kom Bjarki Már Íslandi þremur mörkum yfir, 28-25. Þetta reyndist síðasta mark Íslands í leiknum.

Afleitur lokakafli

En Ungverjaland skoraði síðustu fimm mörkin í leiknum. Okkar menn virkuðu ráðþrota í sókninni og meira að segja hinn pottþétti Bjarki Már klikkaði á síðustu þremur skotunum sínum. Útilínan skilaði svo litlu og Ómar Ingi virkaði dauðuppgefinn enda búinn að spila nánast hverja einustu sekúndu á mótinu. Vörnin hélt síðan ekki neinu.

Ungverjar unnu á endanum tveggja marka sigur, 28-30, og komust á topp riðilsins. Og ef þeir vinna Portúgali á mánudaginn fara þeir með fjögur stig í milliriðla en Íslendingar aðeins tvö. Að því gefnu að okkar menn vinni Suður-Kóreumenn sem eru 99 prósent líkur á að gerist.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira