Innherji

Helgi látinn fara og mark­miðið að gera VÍS að „væn­legri fjár­festinga­kosti“

Hörður Ægisson skrifar
Helgi Bjarnason hefur verið forstjóri VÍS frá um sumarið 2017.
Helgi Bjarnason hefur verið forstjóri VÍS frá um sumarið 2017.

Helgi Bjarnason, sem hefur stýrt VÍS frá árinu 2017, hefur verið sagt upp störfum en stjórn tryggingafélagsins telur að „nú sé rétti tíminn til að gera breytingar á hlutverki forstjóra“. Markmiðið sé að gera VÍS að „enn vænlegri fjárfestingakosti á markaði með skýrri sýn á vöxt, þróun og fjármagnsskipan.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá VÍS til Kauphallarinnar fyrr í kvöld en þar segir að stjórn félagsins muni ráða nýjan forstjóra á næstunni. Guðný Helga Herbertsdóttir, framkvæmdastjóri sölu og þjónustu, mun taka tímabundið við starfi forstjóra VÍS.

Í þeirri stefnu sem VÍS hefur núna markað sér, sem er sögð „marka kaflaskil“ í rekstri þess, er áformað að gera félagið „söludrifnara, efla tengsl við viðskiptavini og vera í fararbroddi við að innleiða nýjungar í tryggingastarfsemi.“

Þá stefnir VÍS á að verða virkur þátttakandi í þróun fjármálastarfsemi á Íslandi með áherslu á arðsaman vöxt, eignastýringu og ýmis önnur tækifæri sem hafa opnast á fjármálamarkaði.

Þannig mun eignastýringafélagið SIV, sem er í meirihlutaeigu VÍS og var sett á fót síðasta haust, hefja starfsemi á næstunni. „Er það hluti af stefnumörkun stjórnar og fyrsta skrefið í að víkka út starfsemi félagsins á fjármálamarkaði,“ segir í tilkynningu VÍS.

Stærstu hluthafar tryggingafélagsins eru meðal annars lífeyrissjóðirnir Gildi, LSR og Frjálsi. Næst stærsti hluthafinn, með tæplega níu prósenta hlut, er Skel fjárfestingafélag sem keypti sig fyrst inn í VÍS í byrjun síðasta árs og þá ræður Bjarni Ármannsson yfir 7,5 prósenta hlut í gegnum félagið sitt Sjávarsýn.

Hlutabréfaverð VÍS lækkaði um rúmlega 17 prósent á árinu 2022, borið saman við um 12,5 prósent hjá Sjóvá, en markaðsvirði félagsins er um þessar mundir tæplega 30 milljarðar króna.

Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs var hagnaður VÍS um 480 milljónir borið saman við rúmlega 6,7 milljarða hagnað á sama tíma á árinu 2021 sem litaðist þá verulega af miklum verðhækkunum á eignamörkuðum. Hagnaður af vátryggingarrekstrinum var 155 milljónir á fyrstu þremur fjórðungum ársins 2022 á meðan tekjur af fjárfestingastarfseminni voru um 1,2 milljarður.

Í greinargerð stjórnar VÍS fyrir aðalfund félagsins í fyrra var meðal annars bent á, eins og Innherji fjallaði um á þeim tíma, að aukið regluverk og mikil framþróun í fjártækni hefði leitt fram sameiningar fjármálafyrirtækja víða um heim síðustu ár þar sem leitað væri leiða til að lækka kostnað og ná til viðskiptavina með nýjum tekjustraumum.

„Þannig hefur mátt greina skýra þróun hjá innlendum og erlendum aðilum sem félagið horfir til, meðal annars í þá átt að félög nýti styrkleika sína og innviði til frekar útvíkkunar á starfsemi sinni þar sem fjártæknilausnir nýtast til að bjóða viðskiptavinum upp á víðtækara vöruframboð og til að stækka viðskiptvinagrunn sinn,“ sagði í greinargerðinni.

Vegna þessarar þróunar og þeirra breytinga sem hafa orðið í umhverfi VÍS hefði stjórn félagsins sett sér stefnu um fjármagnsskipan til hluthafa sem markar meðal annars þá stefnu að arðgreiðslur verði að lágmarki 40 prósent af hagnaði síðasta árs eftir skatta til hluthafa.

Þá sagði stjórnin að samhliða þessari nýju stefnu að hún væri að „horfa til tækifæra á markaði til að renna fleiri stoðum undir tekjumyndun félagsins með það að leiðarljósi að hámarka arðsemi eigin fjár.“


Tengdar fréttir

Verð­met­ur VÍS töluvert lægr­a en mark­að­ur­inn

Nýtt verðmat á VÍS er tíu prósentum lægra en markaðsgengi. Efnahagsaðstæður eru ekki hagfelldar tryggingafélögum um þessar mundir. Undanfarið ár hefur verið það versta á verðbréfamörkuðum í áratugi. Það er bæði neikvæð ávöxtun af hluta- og skuldabréfum. Auk þess er „kröftugur viðsnúningur“ í efnahagslífinu og mikil fjölgun ferðamanna. Við það fjölgar tjónum og það dregur úr afkomu af tryggingarekstri. „Til að toppa svo allt saman hefur ávöxtunarkrafa til eigin fjár hækkað hratt síðustu vikur.“



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×