Allee rauf 30-fellu múrinn í fyrsta leik sínum fyrir Þór

Snorri Rafn Hallsson skrifar
allee

Þór hafði betur 16–14 gegn Fylki í fyrsta leik liðanna sem fram fór í Ancient. Nokkur tími er liðinn síðan, Þór hefur barist hart á toppnum en Fylkir verið í fallsæti allt tímabilið. Þar að auki hafa nokkrar breytingar orðið á liðunum. Hóp Þórs skipuðu þeir Tony, Peterrr, Dabbeehhh, Allee og Rean en Mikki24, Vikki, Eiki47, Snær og Gvendur léku fyrir Fylki.

Leikurinn hófst að vanda á hnífalotu sem fór Rean innsiglaði fyrir Þór. Því hóf Þór leikinn í vörn en liðið fór vel af stað, vann fyrstu lotuna gallalaust og næstu 2 í kjölfarið. Fylkismenn fundu sér þó leið inn á sprengjusvæðið í fjórðu lotu og Mikki24 sprengdi sprengjuna. Tókst Fylkismönnum svo að jafna 3–3 áður en Þór eignaði sér leikinn algjörlega.

Leikmenn Þórs fylgdu ekki alltaf plani og reyndu að komast upp með áhættusæknar aðgerðir, sem þeir og gerðu. Tony krækti í ás í 9. lotu og vörnin var þétt. Framan af voru Tony og Peterrr atkvæðamestir fyrir Þór en undir lok fyrri hálfleiks var Allee farinn að hitta einstaklega vel með vappanum og kæfa aðgerðir Fylkis í fæðingu.

Staðan í hálfleik: Þór 11 – 4 Fylkir

Síðari hálfleikur reyndist aðeins skárri fyrir Fylkismenn sem unnu fyrstu lotuna með þrefaldri fellu frá Gvendi og þá næstu með góðri vörn á A svæðinu. Þór jók þó forskot sitt á ný í 14–6 þar sem Allee var baneitraður og naut góðs stuðnings liðsfélaga sinna.

Fylkir klóraði sig þó úr fjárhagskröggum og varðist vel með Gvend í fararbroddi en allt kom fyrir ekki. Síðustu tvær loturnar féllu með Þór þar sem Allee rauf 30-fellu múrinn og kom sprengjunni fyrir á sínum stað í 25. lotu til að innsigla sigurinn.

Lokastaða: Þór 16 – 9 Fylkir

Með sigrinum kom Þór sér fyrir við hlið Atlantic á toppnum með níu sigra á tímabilinu en Atlantic á einn leik til góða. Toppliðin mætast svo í næstu umferð. Fylkir situr enn í næst neðsta sæti með tvo sigra, einum fleiri en TEN5ION.

Næstu leikir liðanna:

  • Ármann – Fylkir, þriðjudaginn 10/1 kl. 20:30
  • Þór – Atlantic, fimmtudaginn 12/1 kl. 20:30

Sýnt verður frá leikjunum á Stöð 2 Esport og á Twitch síðu Rafíþróttasamtaka Íslands.

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira