Handbolti

KA/Þór nýtti sér fjár­hags­vand­ræði Randers og fékk til sín efni­lega skyttu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
LIÐ KA/Þór hefur vissulega ollið vonbrigðum á tímabilinu til þessa en þær fengu liðstyrk frá Danmörku í gær.
LIÐ KA/Þór hefur vissulega ollið vonbrigðum á tímabilinu til þessa en þær fengu liðstyrk frá Danmörku í gær. Instagram/@kathor.handbolti

KA/Þór hefur styrkt sig fyrir seinni hluta Olís deildar kvenna í handbolta en danska handboltakonan Ida Hoberg skrifaði undir hjá liðinu í gær.

Ida kemur frá liði Randers HK í Danmörku þar sem hún hefur leikið undanfarin þrjú ár en þar áður var hún í Viborg HK. Hún kemur upp úr yngri flokka starfi Viborg.

Ida er nítján ára gömul vinstri skytta og leikstjórnandi en hefur þrátt fyrir ungan aldur mikla reynslu af meistaraflokksbolta en auk þess að spila með liði Randers hefur hún einnig stundað þjálfun hjá félaginu.

Samkvæmt frétt á heimasíðu KA þá var Ida hugsuð sem framtíðarleikmaður hjá Randers en liðið lenti í miklum fjárhagsvandræðum og í kjölfarið stökk stjórn KA/Þórs á tækifærið að fá Idu norður.

Hún er sterkur leikmaður sem nýtir hraða og styrk sinn vel bæði í vörn og sókn.

Í samtali við heimasíðu KA sagði Ida að hún væri spennt að koma til liðsins og prófa nýjar aðstæður. Þá byggir hún sjálf leik sinn á baráttugleði, vilja og stemningu.

KA/Þór liðið missti leikmenn fyrir þetta tímabil og þá hafa lykilleikmenn einnig glímt við meiðsli. Liðið hefur aðeins unnið þrjá af tíu deildarleikjum sínum og situr í sjötta sæti. Sex efstu liðin fara í úrslitakeppnina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×