Skoðun

Á sið­ferði heima í stjórn­málum?

Gísli Rafn Ólafsson skrifar

„Það má ekkert lengur” er yfirskrift átaks sem starfsendurhæfingarsjóðurinn VIRK setti í loftið nú á haustmánuðum til þess að vekja athygli á þeirri skekkju sem felst í slíkum hugsunar­hætti og af­vopna þau sem nota hann til þess að af­saka og við­halda rót­gróinni mis­beitingu valds á vinnu­stöðum.

Það hefur því miður tíðkast allt of lengi innan stjórnmála á Íslandi að misbeita valdi og að stjórnmálamenn telji sig hafna yfir þau siðferðislegu viðmið sem samfélagið hefur sett. Hvenær varð það allt í lagi að ráðherrar viðurkenndu að hafa brotið lög, en þyrftu samt ekki að sæta ábyrgð? Hvenær varð það allt í lagi að ráðherrar ættu skúffufélög í skattaskjólum og greiddu ekki skatta? Hvenær varð það allt í lagi að tala illa um samstarfsfélaga og fólk í jaðarhópum og nota áfengisdrykkju sem afsökun? Hvenær varð það allt í lagi að embættismenn og ráðherrar geta haldið að sér gögnum um misbeitingu valds kollega sína án þess að þurfa að birta þau? Hvenær varð það allt í lagi að selja ættingjum sínum ríkiseignir á gjafverði og skella svo skuldinni bara á einhvern annan?

Dæmin eru endalaus og í flestum tilvikum virðist sem það dugi fyrir viðkomandi að þegja og loka sig af í smástund þar til fjölmiðlar eru farnir að elta næsta skandal. Þá er bara allt grafið og gleymt og viðkomandi heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist. Einstaka sinnum er einhverjum misboðið og stjórnarsamstarfið springur, en undanfarin ár hafa sýnt okkur að þolmörkin til þess að sprengja ríkisstjórnina hafa bara aukist – því vald er mikilvægara en gott siðferði.

Á bak við tjöldin verða þingkonur enn fyrir áreitni og niðurlægjandi athugasemdum frá þingmönnum, ráðherrum og embættismönnum. Áreitnin er ekki eins opinská og líkamleg og fyrir #metoo byltinguna, en lifir þó enn góðu lífi. Á sama tíma er hatursorðræðan sem blossar á samfélagsmiðlum þungur baggi á þeim sem eru nýlega byrjuð í stjórnmálum og hafa ekki áður orðið fyrir slíkum árásum.

Innan Alþingis eru í gildi siðareglur – reglur í orði en ekki á borði, bitlaus verkfæri. Fyrsta skiptið sem mál fór alla leið í því ferli var þegar þær voru notaðar sem pólitískt vopn, en ekki til þess að taka á alvarlegum siðferðislegum brotum þingmanna og ráðherra.

Við hljótum öll að gera þær kröfur til þeirra sem gegna þessum trúnaðarstöðum fyrir þjóðina að þeir sem hegða sér á þennan hátt sæti ábyrgð fyrir gjörðir sínar, ekki bara af því að “það má ekkert lengur”, heldur af því þetta hefur aldrei mátt!

Höfundur er þingmaður Pírata.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×