Um­fjöllun og við­töl: KR - Tinda­­stóll 77-104 | KR-ingar sjá ekki til sólar

Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson skrifar
Tindastóll vann stórsigur á KR í kvöld.
Tindastóll vann stórsigur á KR í kvöld. Vísir/Diego

Enn tapar KR og útlitið er svart hjá liðinu sem einokaði Íslandsmeistaratitilinn til fjölda ára. Staðan er mjög vond í Vesturbænum og það eru góðar líkur - eins og staðan er núna - á því að KR verði í 1. deild á næstu leiktíð. Hversu skrítið er að lesa og segja það? KR í 1. deild í körfubolta? Tilhugsunin er vægast sagt skrítin.

Tindastóll skoraði fyrstu sex stigin í kvöld en KR-ingar svöruðu vel og jöfnuðu í 9-9. Robertas Freimanis, sem hefur verið vægast sagt léleg sending til KR, skoraði fjögur af þessum níu stigum.

Freimanis skoraði hins vegar ekki fleiri stig en það í öllum leiknum. Tindastóll skoraði næstu sjö stig og lét aldrei forystuna af hendi.

Stólarnir voru tíu stigum yfir í hálfleik, en þrátt fyrir það virkuðu þeir flatir. KR-ingar voru bara enn flatari. Heimamenn virkuðu áhugalausir og í þeirri stöðu sem þeir eru í, þá hafa þeir engan veginn efni á því. EC Matthews skoraði meira en helming stiga KR í fyrri hálfleik á meðan aðrir voru ekki með.

Matthews var ekki eins góður í seinni hálfleik og Stólarnir sigldu þægilega fram úr. Þeir þurftu varla að svitna til að vinna þennan leik. Svo slakir voru heimamenn. Lokatölur 77-104 fyrir gestunum frá Sauðárkróki. Þeir eru með sex sigra og fjögur töp en KR, þeir eru með einn sigur og níu töp í næst neðsta sæti. KR hefur ekki enn unnið leik á heimavelli sínum.

Af hverju vann Tindastóll?

Þeir eru bara miklu betra körfuboltalið. Þeir eru betri á öllum sviðum körfuboltans þessa stundina.

Það er athyglisvert í tölfræðinni hversu mikill munur var á stigaskori af bekknum. Varamenn Tindastóls skoruðu 36 stig á meðan varamenn KR gerðu tólf stig í leiknum.

Hverjir stóðu upp úr?

Sigurður Gunnar Þorsteinsson átti sinn besta leik á tímabilinu og áttu KR-ingar í bölvuðu basli með hann. Hann skoraði í heildina 23 stig. Það voru mjög margir sem áttu fínan leik fyrir Tindastól og dreifðist stigaskorið vel.

Hjá KR var EC Matthews heilt yfir bestur en Þorvaldur Orri lét líka sjá sig í seinni hálfleik.

Hvað gekk illa?

KR-ingar virka mjög andlausir og þá skortir sjálfstraust. Fallið hefur verið hátt á skömmum tíma og þeir þurfa að vinna sig úr því. Varnarleikur KR var mjög slakur og fengu þeir 104 stig á sig. KR gaf bara 13 stoðsendingar í leiknum og það sýnir hversu léleg boltahreyfingin var.

Hvað næst?

Núna er komið smá jólafrí og á KR næst leik eftir tvær vikur gegn Stjörnunni. Tindastóll á næst leik við Val þann sama dag.

„Já að sjálfsögðu, það eru að koma jól”

Sigurður Gunnar Þorsteinsson var frábær í kvöld.vísir/bára dröfn

Sigurður Gunnar átti mjög góðan leik í kvöld og var hann skiljanlega ánægður með þennan flotta sigur.

„Þótt að þeir séu ekki eins og þeir hafa alltaf verið, þá er alltaf erfitt að koma hingað og ná í sigur. Við gerðum það í dag,“ sagði Sigurður eftir leik.

„Baráttugleðin tók yfir í seinni hálfleik. Mér fannst við vera flatir í fyrri hálfleik en þetta var betra í seinni hálfleik.“

Sigurður átti sinn besta leik á tímabilinu í dag. „Klárlega, ég get ekki neitað fyrir það. Það var verið að finna mig á rúllinu. Mér fannst KR ekki vera að dekka rúllið mitt og ég nýtti mér það.“

Tindastóll er um miðja deild með sex sigra og fjögur töp. „Þetta er búið að vera smá ströggl en mér sýnist við vera að ná okkur upp úr því. Það er eðlilegt þegar það koma inn nýjar áherslur, það eru meiðsli og vesen. Miðað við aðstæður erum við á pari.“

Bjartsýnn á framhaldið?

„Já að sjálfsögðu, það eru að koma jól.“

„Miðað við heilsuna á liðinu þá er ég ánægður“

​​Vladimir Anzulovic ræðir við sína menn.Vísir/Diego

​​Vladimir Anzulovic, þjálfari Tindastóls, tók undir með Sigurði. Hann var ánægður með sigurinn.

„Strákarnir voru mjög góðir í dag. Eins og ég sagði fyrir leik þá er KR með mikil einstaklingsæði. Ég held að þeir muni bæta sig seinni hlutann. Ég vil þakka þeim fyrir góðan bardaga,“ sagði Vlad eftir leik og bætti við:

„Ég veit að KR er eitt sigursælasta félagið á Íslandi og ég er viss um að þeir muni rísa aftur upp.“

„Í fyrri hálfleik gátum við gert betur varnarlega. Við bættum það í seinni hálfleik. Að lokum var þetta mjög sanngjarn sigur.“

Það voru margir sem lögðu sitt af mörkum í leiknum. Pétur Rúnar Birgisson var ekki með í dag og Adomas Drungilas spilaði bara tíu mínútur. Aðrir stigu upp.

„Við vissum ekki hverjir myndu spila og ekki spila. Ég er ánægður að vera með góðan hóp af leikmönnum.“

Um tímabilið hingað til segir Vlad: „Við ættum að vera með einn eða tvo sigra í viðbót en miðað við heilsuna á liðinu þá er ég ánægður. Við erum búnir að vera glíma við mörg meiðsli. Strákarnir eru líka að læra á ný kerfi. Við verðum betri.“

Hann var að lokum spurður út í frammistöðu Sigurðar Gunnars í leiknum. „Siggi var frá í fjóran og hálfan mánuð. Hann er að koma til baka og er að leggja mikið á sig. Hann var mjög góður í dag.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira