Handbolti

Haukur aftur með slitið krossband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Haukur Þrastarson hefur verið meira og meiddur síðan hann gekk í raðir Kielce.
Haukur Þrastarson hefur verið meira og meiddur síðan hann gekk í raðir Kielce. epa/GEIR OLSEN

Haukur Þrastarson er með slitið krossband í hné og verður frá keppni út tímabilið. Þetta kom í ljós í myndatöku.

Kielce, sem Haukur leikur með, greindi frá þessu á heimasíðu sinni í dag. Fregnirnar koma lítið á óvart enda var strax ljóst að meiðslin væru alvarleg. Haukur meiddist í fyrri hálfleik í leik Kielce og Pick Szeged í Meistaradeild Evrópu í fyrradag.

Þetta er í annað sinn sem Haukur slítur krossband. Það gerðist fyrst í október 2020, í Meistaradeildarleik gegn Elverum, en þá á vinstra hné. Nú er það hægra krossbandið sem er slitið.

Það tók Hauk tíma að ná fyrri styrk eftir fyrra krossbandsslitið en hann var kominn á gott ról og búinn að spila mjög vel með Kielce áður en áfallið dundi yfir á miðvikudaginn.

Haukur gekk í raðir Kielce frá Selfossi 2020. Hann varð Íslandsmeistari með Selfyssingum 2019.

Haukur lék með íslenska landsliðinu á HM 2019 og EM 2020 en missti af HM 2021 og EM 2022 vegna meiðsla og nú er ljóst að hann missir einnig af HM í byrjun næsta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×