Fótbolti

Real Madrid að krækja í næstu vonarstjörnu Brasilíu eftir tvö ár

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Hinn 16 ára gamli Endrick hefur vakið gríðarlega athygli um allan heim.
Hinn 16 ára gamli Endrick hefur vakið gríðarlega athygli um allan heim. Ricardo Moreira/Getty Images

Spænska stórveldið Real Madrid er við það að tryggja sér þjónustu 16 ára gamla undrabarnsins Endrick frá Palmeiras í Brasilíu.

Það eru hinir ýmsu miðlar sem greina frá þessu, en þar á meðal er félagsskiptasérfræðingurinn Fabrizio Romano. Romano segir að Madrídingar greiði 60 milljónir evra fyrir framherjann, auk 12 milljóna í skatta. Félagið mun því greiða samtals 72 milljónir evra, eða tæplega 11 milljarða íslenskra króna.

Endrick er þó ekki á leið til Real Madrid í félagsskiptaglugganum sem opnar nú í janúar í Evrópu. Þá er hann heldur ekki á leið til félagsins í félagsskiptaglugganum næsta sumar, heldur mun leikmaðurinn ganga til liðs við Madrídinga í júlí 2024 þegar hann verður orðinn 18 ára gamall.

Þá tekur Romano einnig fram að enn sé ekki búið að skrifa undir neinn samning, en að Endrick og Real Madrid hafi komist að munnlegu samkomulagi. Ef marka má orð Romano mun Endrick skrifa undir sex ára samning sem mun gilda til ársins 2030.

Ekki þarf að skrifa neina langloku um knattspyrnuferil Endricks, enda er leikmaðurinn aðeins 16 ára gamall og ferillinn því ekki langur. Hann er alinn upp hjá Palmeiras í Brasilíu þar sem hann lék sinn fyrsta keppnisleik í meistaraflokki í október fyrr á þessu ári. Síðan þá hefur hann leikið alls sjö leiki fyrir liðið og skorað í þeim þrjú mörk.

Þá hefur hann einnig leikið fjóra leiki fyrir U17 ára landslið Brasilíu og skorað í þeim fimm mörk, ásamt því að hafa verið kallaður inn í U20 ára landsliðið þrátt fyrir ungan aldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×