Körfubolti

Kefla­vík á­fram á toppnum og Njarð­vík valtaði yfir Breiða­blik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Aliyah A'taeya Collier átti góðan leik að venju fyrir Njarðvík.
Aliyah A'taeya Collier átti góðan leik að venju fyrir Njarðvík. Vísir/Bára Dröfn

Keflavík vann 12 stiga sigur á ÍR þegar liðin mættust í Breiðholti í Subway deild kvenna í körfubolta í kvöld, lokatölur 63-75. Þá vann Njarðvík stórsigur á Breiðabliki, lokatölur í Kópavogi 76-100.

Topplið Keflavíkur gerði góða ferð í Breiðholtið í kvöld en fyrir fram var talið að gestirnir myndu vinna stórsigur. Mögulega var tapið gegn Val í síðustu umferð enn að pirra þær en Keflavík gekk illa að hrista ÍR af sér.

Munurinn jókst þó hægt og bítandi eftir því sem leið á leikinn og þegar tíminn rann út í fjórða leikhluta var munurinn kominn upp í 12 stig, lokatölur 63-75. Greeta Uprusvar stigahæst hjá ÍR með 19 stig ásamt því að taka 8 fráköst. Birna Valgerður Benónýsdóttir skoraði 21 stig í liði Keflavíkur og tók 7 fráköst.

Breiðablik átti ekki viðreisnar von gegn Njarðvík í Smáranum í kvöld. Gestirnir skoruðu 33 stig gegn aðeins 17 hjá Blikum og gerðu svo gott sem út um leikinn þá og þegar. Fór það svo að Njarðvík vann 24 stiga sigur, lokatölur 76-100.

Sanja Orozovic var stigahæst í lið Breiðabliks með 25 stig. Aliyah A'taeya Collier var stigahæst í liði Njarðvíkur með 22 stig ásamt því að taka 10 fráköst. Þá var Isabella Ósk Sigurðardóttir drjúg gegn sínu gamla félagi, hún skoraði 17 stig og tók 12 fráköst.

Staðan í deildinni er þannig að Keflavík og Haukar eru á toppnum með 20 stig. Þar á eftir kemur Valur með 18 og svo Njarðvík með 16 stig. Grindavík og Fjölnir eru með 8 stig, Breiðablik 4 og ÍR er enn án stiga.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.