Handbolti

Viktor Gísli sýndi Mikkel Hansen í tvo heimana | Myndband

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Viktor Gísli Hallgrímsson hefur spilað stórvel að undanförnu.
Viktor Gísli Hallgrímsson hefur spilað stórvel að undanförnu. vísir/hulda margrét

Viktor Gísli Hallgrímsson sýndi snilli sína milli stanganna hefur Nantes sigraði Álaborg, 35-28, í B-riðli Meistaradeildar Evrópu í handbolta í gær.

Viktor varði tuttugu skot og var sérstaklega öflugur í fyrri hálfleik þar sem leikmenn Álaborgar skoruðu aðeins tólf mörk.

Landsliðsmarkvörðurinn varði meðal annars tvö dauðafæri frá dönsku ofurstjörnunni Mikkel Hansen í fyrri hálfleik.

Eftirminnilegustu vörslurnar í seinni hálfleik voru frá norska landsliðsmanninum Sebastian Barthold. Í stöðunni 26-22 varði Viktor víti frá Barthold sem tók frákastið en Viktor varði aftur.

Viktor hefur átt afar gott tímabil með Nantes. Hann gekk í raðir franska liðsins frá Danmerkurmeisturum GOG í sumar.

Viktor hefur verið orðaður við Kiel en þýska stórliðið ku hugsa hann sem eftirmann Niklas Landin sem fer til Álaborgar eftir þetta tímabil.

Nantes er í 3. sæti B-riðils Meistaradeildarinnar með tólf stig eftir átta leiki. Nantes er einnig í 3. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar. Viktor er með 31,5 prósent hlutfallsmarkvörslu í frönsku deildinni.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.