Handbolti

Ómar Ingi og Gísli Þorgeir í aðalhlutverkum hjá Magdeburg

Smári Jökull Jónsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon átti enn og aftur góðan leik fyrir Magdeburg.
Ómar Ingi Magnússon átti enn og aftur góðan leik fyrir Magdeburg. Vísir/Getty

Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson voru í stórum hlutverkum hjá Magdeburg sem lagði Stuttgart í þýsku úrvalsdeildinni í handknattleik í kvöld. Magdeburg lyfti sér upp í fjórða sætið með sigrinum.

Fyrir leikinn var Magdeburg í fimmta sæti deildarinnar en hafði leikið þremur leikjum færra en flest önnur lið þar sem liðið tók þátt í heimsmeistarakeppni félagsliða fyrr í haust. Stuttgart var í ellefta sætinu, með átta stig eftir ellefu leiki.

Jafnt var á öllum tölum til að byrja með en í stöðunni 8-7 fyrir Stuttgart skoraði Magdeburg fimm mörk í röð og komst í 12-8. Staðan í hálfleik var 15-12 fyrir gestina frá Magdeburg.

Í síðari hálfleik hélst munurinn lengst af í tveimur til fjórum mörkum en þegar rúmar tíu mínútur voru eftir minnkaði Stuttgart muninn í 26-25. Þá náði Magdeburg hins vegar 4-1 kafla og sigldi sigrinum í höfn. Lokatölur 32-28 og Magdeburg þar með komið upp í fjórða sæti deildarinnar.

Ómar Ingi Magnússon skoraði fimm mörk úr sex skotum fyrir Magdeburg og gaf fimm stoðsendingar þar að auki. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk og gaf sjö stoðsendingar.

Magdeburg er eins og áður segir í fjórða sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir toppliði Fusche Berlin en á tvo leiki til góða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×