Handbolti

Fagnaði marki mótherjanna á EM

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Spánar fagna hér hæfilega stórum sigri á Þýskalandi.
Leikmenn Spánar fagna hér hæfilega stórum sigri á Þýskalandi. Getty/Filip Filipovic/

Enn á ný komu upp stórundarlegar aðstæður á stórmóti í handbolta þegar Spánn og Þýskaland spiluðu í lokaleik sínum í riðlinum á HM kvenna í handbolta í gær.

Reglurnar urðu til þess að spænsku stelpurnar klikkuðu viljandi á skoti undir lokin og einn leikmaður spænska liðsins fagnaði síðan með báðum höndum upp í loft þegar Þjóðverjar skoruðu í sókninni á eftir.

Ástæðan fyrir þessu er að spænska liðið varð að vinna leikinn en mátti ekki vinna hann með meira en tveimur mörkum.

Spænska liðið var 23-20 yfir í leiknum þegar fimmtíu sekúndur voru eftir en þá tapa þær þýsku boltanum. Þessi úrslit hefðu þýtt að Spánn færi án stiga inn í milliriðilinn og þær þýsku væru á leiðinni heim af EM.

Spánverjinn Jennifer Guttiérez tók þá ákvörðun að þruma boltanum fram hjá marki Þýskalands. Þýsku stelpurnar brunuðu í sókn og náðu að skora. Spænski leikmaðurinn Paula Argos fagnaði marki mótherja sinna áður en hún áttaði sig og hætti því skyndilega.

Úrslitin urðu því tveggja marka sigur Spánar og bæði lið gátu fagnað í leikslok.

Spánn fær stigin úr þessum leik með sér inn í milliriðil en það var pólska liðið sem tapaði. Pólska liðið hefði farið áfram með tvö stig ef þær spænsku hefðu unnið leikinn með þremur mörkum. Nú eru þær pólsku aftur á móti á leiðinni heim.

Svartfjallaland vann alla leiki sína í riðlinum en liðið fór því inn í milliriðilinn með fullt hús.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×