Körfubolti

Stjórnar­menn NBA taka í sama streng og Lög­mál leiksins: Dagar Kyri­e gætu verið taldir

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kyrie Irving og Brooklyn Nets eru í basli.
Kyrie Irving og Brooklyn Nets eru í basli. AP Photo/Darron Cummings

Eins og kmur fram í þætti kvöldsins af Lögmál leiksins þá gætu dagar Kyrie Irving verið taldir í NBA deildinni í körfubolta. Hans eigið félag, Brooklyn Nets, dæmdi hann í fimm leikja bann eftir að hann neitaði að biðjast afsökunar vegna gyðingahaturs. Forráðamenn deildarinnar taka margir hverjir undir með sérfræðingum Lögmál leiksins þegar kemur að framtíð Kyrie.

Kyrie Irving er þrítugur leikmaur sem er á sínu tólfta tímabili í NBA deildinni. Hann hefur sjö sinnum tekið þátt í Stjörnuleiknum og orðið NBA meistari einu sinni. Hann er með rúmlega 23 stig og tæplega 6 stoðsendingar að meðaltali í leik á ferli sínum. Einnig hefur hann unnið gullverðlaun á Ólympíuleikunum og HM í körfubolta.

Eftir nýjasta útspil hans – sem og allt bólusetningarfíaskóið – virðist sem dagar hans í deildinni gætu verið taldir. Allavega sem stjörnu sem getur gert, og sagt, hvað sem honum sýnist. The Athletic hafði samband við fjöldann allan af stjórnarmönnum deildarinnar og spurði út í stöðu Kyrie.

„Hann er andstæðan við dýrmæta vöru, sem þú vilt að leikmaður sem fær jafn mikið borgað og raun ber vitni, er,“ sagði einn.

„Ég held að Kyrie muni ekki spila aftur í NBA deildinni,“ sagði annar.

„Þetta verða bara eins árs samningar fyrir Irving héðan í frá,“ sagði þriðji.

„Að Nike hafi rift samningnum gerir hlutina enn erfiðari fyrir hann,“ bætti sá fjórði við.

Kyrie Irving er í dag leikmaður Brooklyn Nets og það verður seint sagt að það sé lognmolla í kringum það lið. Kevin Durant fékk ósk sína ekki uppfyllta en hann reyndi að komast frá liðinu í sumar. Eftir slaka byrjun var Steve Nash rekinn sem þjálfari og nú hefur félagið sett Kyrie í bann.

Þegar Nets nældi í þríeykið Durant, Kyrie og James Harden var talað um að liðið ætlaði sér að berjast um meistaratitilinn. Nú, þegar Harden er farinn til Philadelphia 76ers, er liðið nær því að missa af úrslitakeppninni heldur en að berjast um titilinn.


NBA er á Stöð 2 Sport en upplýsingar um útsendingar má finna hér. NBA körfuboltinn er hluti af Stöð 2 Sport erlent sem kostar 3.990 krónur á mánuði.


Tengdar fréttir

Nike segir upp samningi sínum við Kyrie Irving

Nike hefur sagt upp styrktarsamningi sínum við Kyrie Irving eftir að hann deildi myndbandi sem innihélt gyðingahatur á Twitter síðu sinni. Þá hefur Brooklyn Nets einnig sett Irving í bann.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.