Handbolti

Tölvu­flaga í boltanum að trufla stelpurnar á EM í hand­bolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nora Mörk er ein af þeim leikmönnum sem hefur kvartað yfir boltanum og þá aðallega tölvuflögunni sem er á honum.
Nora Mörk er ein af þeim leikmönnum sem hefur kvartað yfir boltanum og þá aðallega tölvuflögunni sem er á honum. Getty/Sanjin Strukic

Leikmenn á Evrópumóti kvenna í handbolta kvarta yfir tölvuflögu sem er í boltanum sem þær spila með á mótinu sem stendur yfir í Norður Makedóníu.

Evrópumótið hófst fyrir helgi og klárast um aðra helgi en það fer nú fram fyrr en oft áður vegna komandi heimsmeistaramóti í fótbolta karla.

Ein nýjung á mótinu í ár er ekki beint að slá í gegnum sjá sumum leikmönnum.

Alþjóða handboltasambandið er að auka upplýsingaöflun sína um leiki á stórmótum með því að setja tölvuflögu í boltann. Þessi tölvuflaga á að auðvelda að mæla hraðann á boltanum í sendingum, skotum sem og að vita nákvæmlega stöðu hans á vellinum.

Boltinn er hins vegar ekki sá sami og áður og leikmenn finna fyrir því.

Í leik Noregs og Frakklands þá losnaði flagan og samkvæmt norsku stórstjörnunni Noru Mörk þá hagaði boltinn sé skringilega í framhaldinu.

Þórir Hergeirsson, þjálfari norska liðsins, var spurður út í þetta líka. „Þetta er allt önnur umræða þegar við förum að ræða þessa tækniþróun í íþróttum. Allt er nú mælt. Spurningin er bara hvenær þú ferð að setja mælitæki á fólk til að fylgjast með hvað þau gera utan íþróttsalsins,“ sagði Þórir Hergeirsson.

Hann hefur gagnrýnt breytingar á boltanum, bæði þessa flögu sem og áætlun um að taka harpix út úr leiknum.

Þórir bendir líka á það að leikmenn eru með flögu í kraga keppnistreyjunnar sem er líka skylda. Hann er hins vegar fylgjandi því. „Tölvuflagan er þarna til að komast að einhverju um íþróttina og ég styð það. Það eru samt mörk. Það er allt í lagi að vera með flögu í boltanum og það getur verið skemmtilegt og áhugavert ekki síst fyrir þá sem eru áhugafólk um tölfræði og rannsóknir. Ég styð rannsóknir á íþróttinni okkar en það er bara farið að rannsaka allt og ekkert í dag,“ sagði Þórir.

Nora er ekki sú eina af leikmönnum Evrópumótsins sem kvartar því það gerði hin danska Simone Petersen líka.

„Ef þú dripplar boltanum og hittir staðinn þar sem flagan er þá getur boltinn breitt um stefnu og það er auðvitað mjög krefjandi,“ sagði Simone Petersen.

„Það getur skipt miklu máli að eiga við svona óútreiknanlega bolta og það er mjög pirrandi,“ sagði Simone.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×