Handbolti

Tvö mörk frá Orra Frey í fyrsta sigri Elverum

Smári Jökull Jónsson skrifar
Orri Freyr gekk til liðs við Elverum á síðasta ári og lék með landsliðinu á Evrópumótinu fyrr á þessu ári.
Orri Freyr gekk til liðs við Elverum á síðasta ári og lék með landsliðinu á Evrópumótinu fyrr á þessu ári. SANJIN STRUKIC/PIXSELL/MB MEDIA/GETTY IMAGES

Orri Freyr Þorkelsson og félagar hans í Elverum unnu sinn fyrsta sigur í Meistaradeildinni í handknattleik þegar liðið lagði Celje Lasko á heimavelli í kvöld.

Elverum hafði beðið lægri hlut í fyrstu fimm leikjum sínum í Meistaradeildinni til þessa en þar er liðið í riðli með stórliðum Barcelona og Kiel auk liða Nantes, Kielce, Álaborgar og Pick Szeged.

Leikurinn í kvöld fór fram á heimavelli Elverum. Norska meistaraliðið tók forystuna strax í upphafi og leiddi með þremur mörkum í hálfleik, staðan þá 17-14.

Í síðari hálfleik hélt Elverum frumkvæðinu. Þeir komust mest fimm mörkum yfir í stöðunni 22-17 en lið Celje Lasko minnkaði muninn jafnt og þétt þegar líða tók á hálfleikinn. Munurinn fór niður í eitt mark í stöðunni 27-26 og svo aftur á lokamínútunni í stöðunni 30-29.

Lengra komst slóvenska liðið þó ekki. Elverum skoraði síðasta mark leiksins og vann góðan tveggja marka sigur 31-29.

Orri Freyr skoraði tvö mörk í leiknum í kvöld úr þremur skotum. Tobias Gröndahl var markahæstur hjá Elverum með átta mörk en Stefan Zabic skoraði sömuleiðis átta mörk fyrir Celje Lasko.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×