Handbolti

„Smá mjólkursýra og bakið aðeins að bögga mann“

Jón Már Ferro skrifar
Magnús Óli Magnússon átti góðan leik í kvöld.
Magnús Óli Magnússon átti góðan leik í kvöld. Vísir/Hulda Margrét

Magnús Óli Magnússon, miðjumaður og skytta Vals, var frábær í kvöld gegn FTC Ferencváros frá Ungverjalandi. Hann skoraði meðal annars 7 mörk og steig upp þegar á þurfti að halda.

„Þetta var geðveikt. Við keyrðum á þá og spiluðum okkar leik. Við vissum að þeir væru stórir og þungir. Þannig við ákváðum að nýta okkur það og koma með hraðann, vera óhræddir og keyra á þá.“

Magnús Óli var þreyttur eftir leik enda mæddi mikið á honum í kvöld. Einhverjir höfðu áhyggjur af því að líkami hans myndi ekki höndla álagið að spila á móti jafn sterkum andstæðingum. Það afsannaði hann með sinni frammistöðu.

„Já, það er smá mjólkursýra og bakið aðeins að bögga mann en það er bara sjúkraþjálfun og endurheimt. Áfram gakk.“

Valsmenn eru þekktir fyrir að spila hraðann handbolta. Það voru ekki allir sem voru vissir um að það myndi ganga í kvöld, en annað kom á daginn.

„Við komum inn sem minni aðilinn en þegar við erum á milljón, þá erum við frábærir. Eins og Lemgo í fyrra við náðum í 6 til 7 marka forystu í seinni hálfleik. Það er bara þetta. Við erum allir á milljón og erum á sömu blaðsíðu.“

Magnús var staðráðinn í að halda þessum dampi áfram í Evrópukeppninni.

„Ég ætla rétt að vona það. Maður verður að hugsa vel um sig, borða og sofa vel ef maður ætlar að eiga möguleika í þetta.“


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.