Handbolti

Teitur og félagar snéru taflinu við gegn Benidorm

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg hófu riðlakeppni Evrópudeildarinnar á sigri.
Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg hófu riðlakeppni Evrópudeildarinnar á sigri. Axel Heimken/picture alliance via Getty Images

Teitur Örn Einarsson og félagar hans í þýska liðinu Flensburg unnu fimm marka sigur er liðið tók á móti Benidorm í B-riðli Evrópudeildarinnar í handbolta í kvöld, 35-30.

Eftir jafnar upphafsmínútur náðu gestirnir frá Benidorm yfirhöndinni um miðja fyrri hálfleik og náðu mest fjögurra marka forskoti eftir um 25 mínútna leik. Heimamenn í Flensburg minnkuðu þó muninn niður í tvö mörk, en gestirnir skoruðu seinasta mark hálfleiksins og staðan var því 16-19 þegar gengið var til búningsherbergja.

Þjóðverjarnir mættu þó ákveðnir til leiks í síðari hálfleik og náðu fljótt tökum á leiknum. Liðið náði fjögurra marka forskoti og hleypti gestunum aldrei nálægt sér eftir það og vann að lokum góðan fimm marka sigur, 35-30.

Teitur Örn kom ekki við sögu hjá Flensburg í kvöld, en liðið er nú með tvö stig eftir fyrstu umferð riðlakeppninnar, líkt og Valur og PAUC frá Frakklandi.

Þá voru tvö önnur Íslendingalið í eldlínunni á sama tíma. Aðalsteinn Eyjólfsson og lærisveinar hans í Kadetten Schaffhausen máttu þola tveggja marka tap er liðið tók á móti Montpellier frá Frakklandi í A-riðli, 28-30, og Hannes Jón Jónsson og lærisveinar hans í Alpla HC Hard þurftu að sætta sig við eins marks tap gegn Sporting frá Portúgal í C-riðli, 31-30.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×