Handbolti

FH-ingar hættir að jaskast á Agli

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Egill Magnússon spilaði meiddur í upphafi móts.
Egill Magnússon spilaði meiddur í upphafi móts. vísir/diego

Egill Magnússon, leikmaður FH, spilaði meiddur í upphafi tímabilsins og á endanum ákváð þjálfarateymi liðsins að segja stopp.

Egill var fjarri góðu gamni þegar FH sigraði Hauka, 26-25, í Hafnarfjarðarslagnum í Olís-deildinni á fimmtudaginn. Í Handkastinu staðfesti Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, að Egill væri meiddur.

„Hvað Egil varðar meiddist hann í Hafnarfjarðarmótinu og við erum búnir að jaskast á honum. Hann er búinn að meiddur á úlnlið,“ sagði Sigursteinn.

„Margir hafa haft gaman að fara yfir tölfræðina hans en hann var ekki heill og skaut ekki vel. Það var ekkert hægt að halda áfram lengur eins og hlutirnir voru.“

Sigursteinn segir vel mega vera að hann hafi gert mistök með að nota Egil í upphafi móts þrátt fyrir að hann hafi ekki gengið heill til skógar.

„Það má alltaf tala um að þetta hafi verið mistök. En hann vildi spila og við vildum líka spila okkur í gegnum þetta. Það þurfti líka að fá rétta greiningu og það tók sinn tíma. Eftir að hún lá fyrir vissum við að við gætum ekki haldið áfram,“ sagði Sigursteinn og bætti við að Egill verði allavega frá í mánuð.

Andri Clausen, sem átti góða innkomu í FH-vörnina gegn Gróttu í 5. umferð, meiddist á æfingu með U-18 ára landsliðinu og var þar af leiðandi ekki með gegn Haukum.

Hlusta má á Handkastið í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×