Handbolti

Elvar skoraði tvö er Melsungen komst aftur á sigurbraut | Viggó markahæstur í tapi

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Elvar Örn Jónsson skoraði tvö fyhrir Melsungen í dag.
Elvar Örn Jónsson skoraði tvö fyhrir Melsungen í dag. Florian Pohl/City-Press via Getty Images

Íslendingalið Melsungen vann langþráðan sigur er liðið tók á móti Wetzlar í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í dag, 21-19. Þá var Viggó Kristjánsson markahæsti maður vallarins er Leipzig tapaði gegn Füchse Berlin, 26-31.

Leikur Melsungen og Wetzlar var jafn og spennandi frá upphafi til enda, en heimamenn í Melsungen höfðu þó yfirhöndina stærstan hluta leiksins. Liðið leiddi með einu til tveimur mörkum nánast allan fyrri hálfleikinn og fór með eins marks forskot inn í hálfleikshléið, staðan 11-10.

Gestirnir í Wetzlar náðu þó forystunni snemma í síðari hálfleik og héldu henni alveg þar til heimamenn jöfnuðu í 18-18. Melsungen náði mest þriggja marka forskoti undir lok leiksins og vann að lokum langþráðan tveggja marka sigur, 21-19.

Þetta var aðeins annar sigur liðsins á tímabilinu og Melsungen situr nú í tíunda sæti deildarinnar með sex stig eftir átta leiki, einu stigi meira en Wetzlar sem situr sæti neðar.

Þá máttu Viggó Kristjánsson og félagar hans í Leipzig þola fimm marka tap er liðið tók á móti Füchse Berlin, 26-31. Viggó var markahæsti maður vallarins með átta mörk, en Leipzig situr í 16. sæti deildarinnar með fjögur stig á meðan Füchse Berlin hirti toppsætið með sigrinum í dag.

Að lokum skoruðu Hákon Daði Styrmisson og Elliði Snær Viðarsson sitthvort markið er Gummersbach tapaði gegn Hamburg, 34-31.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×