Handbolti

Ísland á sex stórmót í handbolta á næsta ári

Sindri Sverrisson skrifar
Stelpurnar sem koma til með að skipa U19-landslið Íslands á EM næsta sumar náðu óvænt 8. sæti á HM U18 í sumar.
Stelpurnar sem koma til með að skipa U19-landslið Íslands á EM næsta sumar náðu óvænt 8. sæti á HM U18 í sumar. IHF

Evrópska handknattleikssambandið tilkynnti í dag að Ísland yrði meðal þátttakenda í lokakeppni EM U19 og U17 landsliða kvenna næsta sumar. Þar með spila sex landslið Íslands á stórmóti í handbolta á næsta ári.

Rússland missti þátttökurétt sinn á EM U19 og EM U17 kvenna næsta sumar og fær Ísland þau sæti vegna góðs árangurs síðastliðið sumar, þegar Ísland varð í 8. sæti á heimsmeistaramóti U18 landsliða og U17 landsliðið endaði í 13. sæti á Opna Evrópumótinu.

„Þátttaka í stórmótum er ómetanleg reynsla fyrir landsliðsfólkið okkar og frábær undirbúningur fyrir A landslið, þetta er því stór áfangi í því að búa enn betur að okkar framtíðarlandsliðsmönnum með von um frekari afrek þegar kemur að A landsliðum í framtíðinni,“ segir í tilkynningu frá HSÍ þar sem greint er frá tíðindunum góðu hvað stúlknalandsliðin varðar.

Áður var ljóst að A-landslið karla yrði með á HM í janúar, og að þrjú yngri landslið karla yrðu einnig með á stórmótum á næsta ári.

Íslensk handboltalandslið á stórmótum 2023:

  • A landslið karla - HM í Svíþjóð og Póllandi
  • U-21 karla - HM í Þýskalandi og Grikklandi
  • U-19 karla - HM í Króatíu
  • U-17 karla - Opna Evrópumótið í Svíþjóð
  • U-19 kvenna - EM í Rúmeníu
  • U-17 kvenna - EM í N-Makedóníu



Fleiri fréttir

Sjá meira


×