Mesta lækkunin varð í júlí þegar vísitalan fór úr 154,7 niður í 140,6 en síðan þá hefur alþjóðleg vísitala hrávöruverðs farið niður á við, statt og stöðugt, og er nú á pari við það sem hún mældist í janúar fyrir innrás Rússa.
Sjáum við sömu þróun á Íslandi?
„Nei. Við sjáum ekki að lækkun á heimsmarkaðsverði á matvælum skili sér hingað. Allavega ekki ennþá,“ segir Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnisstjóri verðlagseftirlits Alþýðusambands Íslands.
source: tradingeconomics.com
En hvers vegna eru íslenskir kaupmenn svona seinir að bregðast við?
„Það er auðvitað gömul saga og ný að verð lækkar sjaldnast hér, og jafnvel þrátt fyrir að þeir þættir, sem ýttu upphaflega undir hækkað verðlag, gangi til baka þá sjáum við verð mjög sjaldan lækka hér. Það á við í þessu tilfelli. Við sjáum að bensín hefur lækkað aðeins í verði síðustu mánuði og gengisveikingin sem var mikil í COVID og var talað um að hefði áhrif á verðhækkanir, hefur algjörlega gengið til baka þannig að við erum heldur ekki að sjá endurspeglast í verðlagi.“
Verðbólga kemur verst niður á þeim sem hafa minnst á milli handanna og mega illa við hækkunum á nauðsynjum.
„Það eru auðvitað bæði matvara og gjöld sem tengjast samgöngum; bifreiðar og bensín sem vega langþyngst í útgjöldum heimilanna þannig að þetta er bara mjög alvarlegt mál og gríðarlega mikilvægt að verslanirnar bregðist við og skili lækkunum út í verðlagið til neytenda en haldi þessu ekki bara eftir. Miðað við hagnaðartölur fyrirtækjanna þá ætti að vera fullt svigrúm til þess.“