Handbolti

Broti Úlfs vísað til aganefndar

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Úlfur Gunnar Kjartansson gæti átt yfir höfði sér leikbann.
Úlfur Gunnar Kjartansson gæti átt yfir höfði sér leikbann. vísir/hulda margrét

Framkvæmdastjóri HSÍ hefur vísað broti Úlfs Gunnars Kjartanssonar í leik KA og ÍR til aganefndar sambandsins.

Úlfur braut illa á Allan Norðberg þegar KA vann ÍR, 38-25, á fimmtudaginn. Hann kýldi Færeyinginn í magann og braut svo aftur illa á honum í leiknum.

„Þarna sjáum við að hann er með hnefann á lofti. Svona vörn spilar enginn. Ef hann fer ekki í þriggja leikja bann veit ég ekki hvað ljótt brot er. Ég sagði fimm leikir á Twitter en var svolítið heitur. Ég þoli ekki svona ofbeldi í íþróttum. Þetta flokkast bara undir líkamsárás í mínum bókum,“ sagði Logi Geirsson um brotið í Seinni bylgjunni á laugardaginn.

Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóri HSÍ, staðfesti í samtali við Vísi í dag að hann hefði vísað broti Úlfs til aganefndar sambandsins. Hún kemur saman á morgun og tekur þá ákvörðun um Úlfur verður dæmdur í bann.

Aganefndar úrskurðar venjulega um atriði sem koma fram í atvikaskýrslum dómara og/eða eftirlitsmanna HSÍ en framkvæmdastjóri sambandsins, og aðrir sem hafa til þess heimild, geta einnig beint öðrum málum til aganefndarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×