Viðskipti innlent

Bernan­ke í hópi nýrra hand­hafa Nóbelsins í hag­fræði

Atli Ísleifsson skrifar
Ben S. Bernanke, Douglas W. Diamond and Philip H. Dybvig fá hagfræðiverðlaunin í minningu Alfreds Nóbels í ár.
Ben S. Bernanke, Douglas W. Diamond and Philip H. Dybvig fá hagfræðiverðlaunin í minningu Alfreds Nóbels í ár. Nóbelsverðlaun

Bandarísku hagfræðingarnir Ben S. Bernanke, Douglas W. Diamond og Philip H. Dybvig fá hagfræðiverðlaun sænska seðlabankans til minningar um Alfred Nóbel í ár fyrir rannsóknir sínar á bönkum og fjármálakreppum.

Bernanke var seðlabankastjóri Bandaríkjanna á árunum 2006 til 2014. Diamond starfar við Háskólann í Chicago og Dybvig við Washington University í St Louis.

Bernanke fær verðlaunin fyrir framlag sitt um það hvernig bankastarfsemi hafði úrslitaáhrif á það hversu djúp kreppan mikla á fjórða áratug síðustu aldar varð og Diamond og Dybvig fá verðlaunin fyrir framlag sitt sem snertir meðal annars mikilvægi þess að hafa innstæðutryggingar og hvernig reglur um slíkt og fleira í starfsemi banka geti komið í veg fyrir fjármálakreppur. 

Rannsóknir fræðimanna voru birtar á níunda áratug síðustu aldar og eru niðurstöður þeirra nú almennt viðurkenndar.

Verðlaunin teljast strangt til tekið ekki til Nóbelsverðlauna enda eru verðlaunin ekki komin frá Alfred Nobel sjálfum. Verðlaunin hafa verið veitt frá árinu 1969 og er almennt talað um þau sem hluta af Nóbelsverðlaununum.

Sænska akademían tilkynnti á síðasta ári að Kanadamaðurinn David Card annars vegar og hinn bandarísk-ísraelski Joshua D. Angrist og hollensk-bandaríski Guido W. Imbens hins vegar hafi hlotið hagfræðiverðlaun sænska seðlabankans.

Card hlaut verðlaunin fyrir empírískar rannsóknir sínar á hagfræði vinnumarkaðar, en þeir Angrist og Imbens fyrir aðferðafræðilegt framlag sitt til greiningar á orsakasambandi.


Tengdar fréttir





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×