Handbolti

Haukur skoraði eitt í naumum Meistaradeildarsigri Kielce

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Haukur Þrastarson og félagar hans í Kielce unnu nauman sigur í kvöld.
Haukur Þrastarson og félagar hans í Kielce unnu nauman sigur í kvöld. EPA-EFE/ANDREAS HILLERGREN

Haukur Þrastarson og félagar hans í pólska meistaraliðinu Lomza Industria Kielce unnu nauman þriggja marka sigur gegn Kiel er liðin mættust í riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í kvöld. Lokatölur 40-37 í gríðarlegum markaleik.

Jafnræði var með liðunum frá upphafi til enda, en heimamenn í Kielce virtust þó skör framar lengst af í fyrri hálfleik. Þrátt fyrir það var ekkert sem skildi liðin að þegar gengið var til búningsherbergja, staðan jöfn 19-19.

Síðari hálfleikur bauð upp á sömu spennu og sá fyrri og skiptust liðin á að hafa forystuna. Þegar um þrjár mínútur voru til leiksloka var staðan enn jöfn, 37-37, en heimamenn í Kielce skoruðu seinustu þrjú mörk leiksins og unnu að lokum þriggja marka sigur, 40-37.

Haukur Þrastarson skoraði eitt mark fyrir Kielce úr þremur skotum í kvöld, en liðið situr nú í fjórða sæti B-riðils með sex stig eftir fjóra leiki, líkt og Álaborg og Nantes sem eru með betri markatölu. Kiel situr hins vegar sæti neðar með tveimur stigum minna.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.