Umfjöllun og viðtöl: ÍR 83-77 Njarðvík | Fallbyssufóðrið skaut á móti

Valur Páll Eiríksson skrifar
ÍR-ingar fagna sigri kvöldsins með stuðningsmönnum.
ÍR-ingar fagna sigri kvöldsins með stuðningsmönnum. Vísir/Bára Dröfn

ÍR, sem var spáð botnsæti Subway-deildar karla í körfubolta, vann Njarðvík 83-77 í fyrstu umferð deildarinnar í Breiðholti í kvöld. Mikil stemning var á fyrsta leik liðsins í nýju íþróttahúsi við Skógarsel.

ÍR var að spila sinn fyrsta leik í nýja húsinu og hafa því kvatt íþróttahús Seljaskóla. Þá var nýr þjálfari við stjórnartaumana, hinn 22 ára gamli Ísak Máni Wium, sem var að stýra sínum fyrsta leik sem aðalþjálfari í efstu deild.

ÍR hóf leikinn af krafti og komst snemma 13-6 yfir þar sem Njarðvíkingar virkuðu ryðgaðir og töpuðu alls átta boltum í fyrsta leikhluta. ÍR var með sex stiga forystu að leikhlutanum loknum, 19-13, en sú forysta hefði getað verið stærri þar sem ÍR skoraði aðeins úr einu af sex vítaskotum sínum í leikhlutanum.

Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur, fór vel yfir málin með sínum mönnum fyrir annan leikhlutann og skoraði Njarðvík 12 af fyrstu 15 stigum leikhlutans. Þar af var Mario Matasevic með átta og komst Njarðvík 38-32 yfir.

Ghetto hooligans voru háværir og öflugir í stúkunni í kvöld.Vísir/Bára Dröfn

Matasevic fór í kjölfarið af velli og eftir það tók við fimm og hálfrar mínútna kafli þar sem Njarðvík skoraði ekki stig. Það var ekki fyrr en á lokasekúndu annars leikhluta sem Haukur Helgi Pálsson skoraði flautuþrist og endaði bið Njarðvíkur eftir stigum. Vegna þeirra þriggja stiga var munurinn sex stig, 41-35 fyrir ÍR í hálfleik.

Njarðvík náði ekki aftur álíka áhlaupi og í upphafi annars leikhluta. ÍR-ingar voru með forystuna allt til loka og héldu Njarðvík í seilingarfjarlægð allan síðari hálfleikinn. Heimamenn gerðu sín mistök í sókninni og köstuðu boltanum þónokkuð frá sér en Njarðvíkingar náðu einfaldlega aldrei að refsa fyrir þeirra mistök og brúa bilið til fulls.

Ghetto Hooligans, stuðningssveit ÍR, fjölmennti í stúkuna og studdi afar vel við bakið á sínum mönnum og með þeirra stuðningi unnu Breiðhyltingar stemningssigur 83-77.

ÍR-ingum var spáð neðsta sæti deildarinnar sendu því sterk skilaboð gegn Njarðvíkingum sem eiga að lenda í þriðja sæti samkvæmt sömu spá. ÍR hefur mótið á sigri og líta björtum augum á framhaldið en Njarðvíkingar þurfa að taka til í sóknarleik sínum eftir tap kvöldsins þar sem skotnýtingin, og sérstaklega þriggja stiga nýtingin, var afar slök og boltinn tapaðist alls 20 sinnum.

Af hverju vann ÍR?

ÍR var skrefi á undan gott sem allan leikinn og stemningin úr stúkunni hjálpaði þeim við að klára leikinn gegn Njarðvíkurliði sem náði aldrei almennilegum takti.

Ein af troðslum Ty Brits sem fékk fólk til að rísa á fætur í stúkunni með skemmtilegum töktum.Vísir/Bára Dröfn

Hverjir stóðu upp úr?

Ty Birts var mjög öflugur hjá ÍR. Hann skoraði flest stig þeirra, 23 talsins, og spilaði 37 mínútur af 40 í leiknum. Körfur hans komu á mikilvægum tímum og þá skoraði hann einnig stemningskörfur sem reif fólk í stúkunni á fætur. Sérstaklega stóð upp úr rosaleg troðsla hans um miðjan fjórða leikhluta.

Hann skoraði alls 23 stig, tók 14 fráköst og gaf sex stoðsendingar.

Hjá Njarðvík dró Dedrick Basile vagninn og hélt þeim inni í leiknum á stórum köflum. Hann var öflugur í að keyra að körfunni og fiskaði ósjaldan villur þegar hann skoraði, og bætti þá stigi við af vítalínunni. Hann skoraði 21 stig en það dugði skammt þar sem stuðningurinn frá félögum hans var einfaldlega ekki mikill.

Hvað gekk illa?

Lisandro Ratio átti fjögur skot í leiknum og hitti úr einu. Hann var á kafla hættur að reyna að skjóta, og virkaði sjálfstraustslítill, þar sem hann fékk svoleiðis að heyra það frá Ghetto Hooligans úr stúkunni. Hann var hæðnislega kallaður MVP (besti leikmaður deildarinnar) og sagt að hann væri á heimleið (Somebody is going home sungu þeir í stúkunni). Það er þó ekkert meira við hann að sakast en aðra Njarðvíkinga sem hittu flestir illa í kvöld.

Dedrick Basile var besti maður Njarðvíkur og hélt þeim á löngum köflum inni í leiknum. Það dugði skammt.Vísir/Bára Dröfn

Hvað gerist næst?

Bæði lið leggja land undir fót og eiga ferðalög fyrir höndum.

ÍR fer á Sauðárkrók og mætir Tindstóli næsta fimmtudagskvöld. Njarðvík fer hins vegar á Egilstaði og mætir Hetti sama kvöld.

Ísak: „Ógeðslega gaman“

„Þetta var ógeðslega gaman. Ég lýg því ekkert,“ sagði Ísak Máni Wium eftir sigur ÍR-inga í hans fyrsta leik sem aðalþjálfari í efstu deild og fyrsta leik ÍR í nýju húsi.

„Það myndaðist góð stemning og Hooligans náttúrulega eru geggjaðir og þeir eru bara það besta við þetta félag. Þeir stigu upp í kvöld eins og liðið á vellinum,“ segir Ísak.

„Hann segir ÍR hafa náð að viðhalda góðu orkustigi sem skili sigrinum. Að undanskildum fimm mínútna kafla þar sem Njarðvík náði forystunni í öðrum leikhluta voru ÍR með leikinn í höndum sér nánast frá upphafi til enda.

„Það hefur verið lenskan hjá okkur á undirbúningstímabilinu að við höfum náð að byrja sterkt og af mikilli orku. Sú orka hélt sér fyrir utan kannski smá kafla í öðrum leikhluta. Við getum orðið ágætis afl varnarlega ef þetta orkustig heldur sér, ég hafði smá áhyggjur af því að þetta myndi detta niður en þetta var frábær frammistaða,“ segir Ísak.

Margt fleira kemur fram í viðtali við hann eftir leik sem má sjá í heild sinni í spilaranum að ofan.

Benedikt: ÍR vann bara sanngjarnt

„Maður setur alltaf stefnuna á sigur í fyrsta leik, maður vill alltaf byrja þetta vel og ná einhverjum skriðþunga í byrjun. Við vorum bara að elta allan þennan leik og ÍR vann bara sanngjarnt,“ segir Benedikt Guðmundsson, þjálfari Njarðvíkur eftir leik. 

Hann segir margt hafa klikkað, en þá sérstaklega skotnýting og sóknarleikur liðsins.

„Þetta var bara erfitt. Það voru margir tapaðir boltar, hræðileg hittni, þriggja stiga nýtingin einhver 17 prósent. Þetta var ekki að ganga í kvöld. Sóknarleikurinn var búinn að vera í fínu standi í æfingaleikjunum en þetta er náttúrulega allt annað. Nú erum við komnir í deild,“ segir Benedikt.

Margt fleira kemur fram í viðtalinu við Benedikt sem má sjá í heild í spilaranum að ofan.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.