Umfjöllun og viðtöl: Þór Þ. - Breiðablik 100-111 | Breiðablik vann upphafsleik tímabilsins

Andri Már Eggertsson skrifar
Valur Þór Þ. Subway deild karla vetur 2022 körfubolti KKÍ
Valur Þór Þ. Subway deild karla vetur 2022 körfubolti KKÍ

Breiðablik fór til Þorlákshafnar í upphafs leik Subway deildar-karla og vann nokkuð öruggan sigur á Þór Þorlákshöfn.

Breiðablik byrjaði leikinn betur og leit aldrei um öxl eftir að hafa verið með sextán stiga forystu eftir fyrsta leikhluta. Leikurinn endaði með ellefu stiga sigri Breiðabliks 100-111. 

Tilhlökkunin við að byrja Subway deildina skein í gegn hjá leikmönnum og starfsliði Breiðabliks. Það var góð stemmning yfir Kópavogsbúum sem erfitt er að lýsa en á meðan Blikar fögnuðu öllu var eins og Þórsarar væru að taka þessum leik sem sjálfsögðum hlut og í raun bara rumpa honum af.

Þórsarar voru í miklum vandræðum með varnarleik Breiðabliks og töpuðu heimamenn fjórum boltum á fyrstu fimm mínútunum. Davíð Arnar hélt Þór inni í leiknum til að byrja með en hann gerði sex af fyrstu átta stigum Þórs.

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, tók leikhlé ellefu stigum undir 12-23 þegar sjö mínútur voru liðnar af leiknum. Leikhlé Lárusar skilaði litlu þar sem Blikar héldu áfram að keyra á Þórsara og voru gestirnir sextán stigum yfir eftir fyrsta leikhluta.

Þór Þorlákshöfn beit frá sér í öðrum leikhluta og var töluvert meira líf í heimamönnum. Pablo Hernandez sem var mikið í umræðunni fyrir leik. Minnti á sig og gerði 15 stig í öðrum leikhluta. Davíð Arnar Ágústsson kveikti síðan í stúkunni þegar hann setti þrist og fékk körfu góða. Forskot Breiðabliks fór minnst niður í fjögur stig í fyrri hálfleik.

Þór Þorlákshöfn vann annan leikhluta með níu stigum og var staðan í hálfleik 46-53.

Breiðablik byrjaði síðari hálfleik með látum. Gestirnir gerðu fyrstu sjö stigin í seinni hálfleik og var Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, snöggur að taka leikhlé. Eftir leikhlé Lárusar var allt annað að sjá sóknarleik Þórs en það gleymdist að skerpa á varnarleiknum þar sem Breiðablik átti alltaf svar þegar Þór setti stig á töfluna. Breiðablik var þrettán stigum yfir þegar haldið var í síðasta fjórðung.

Þrátt fyrir að Þórsarar bitu aðeins frá sér í fjórða leikhluta var forskot Breiðabliks aldrei í hættu. Þór minnkaði muninn niður í níu stig en þá var ein og hálf mínúta eftir sem var of lítill tími fyrir heimamenn. Breiðablik fagnaði á endanum ellefu stiga sigri 100-111.

Af hverju vann Breiðablik?

Leikurinn spilaðist nákvæmlega eins og Breiðablik vildi. Það var mikil hraði og Blikum leið vel frá fyrstu mínútu til þeirra síðustu.

Breiðablik byrjaði leikinn frábærlega og voru sextán stigum yfir eftir fyrsta leikhluta sem reyndist vera of stór biti fyrir Þór.

Hverjir stóðu upp úr?

Það stóðu margir leikmenn Breiðabliks upp úr. Hinn 36 ára gamli Everage Lee Richardson var frábær í kvöld. Hann var stigahæstur hjá Breiðabliki með 28 stig en einnig tók hann 9 fráköst og skilaði 29 framlagspunktum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Þórs Þorlákshafnar var ansi klaufalegur oft á tíðum. Þór tapaði 21 bolta í leiknum sem varð til þess að Breiðablik fékk auðveldar körfur.

Breiðablik fór illa með Þór undir körfunni. Breiðablik gerði 56 stig í teignum og tók fjórtán sóknarfráköst.

Hvað gerist næst?

Breiðablik fær KR í Smárann næsta fimmtudag klukkan 18:15.

Næsta föstudag fer Þór Þorlákshöfn í Ólafssal og mætir Haukum klukkan 20:15.

Lárus: Orkustigið hjá Breiðabliki var miklu hærra heldur en hjá okkur

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, var svekktur eftir leikVísir/Hulda Margrét

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs Þorlákshafnar, var svekktur eftir leik.

„Breiðablik var með miklu hærra orkustig. Breiðablik var að taka miklu fleiri sóknarfráköst þrátt fyrir að við séum með stærra lið. Um leið og við reyndum að koma til baka þá náðu Blikar boltanum eftir baráttu og það gerði okkur erfitt fyrir,“ sagði Lárus Jónsson og hélt áfram.

„Breiðablik var ekki með merkilega þriggja stiga nýtingu en við vorum að rétta þeim boltann sem skilaði þeim auðveldum sniðskotum.“

Þór byrjaði leikinn afar illa og lenti sextán stigum undir eftir fyrsta leikhluta.

„Það má segja að munurinn var að Breiðablik byrjaði betur en við komum samt til baka og vorum ekki þreyttir en léleg byrjun spilaði auðvitað inn í.“

„Við byrjuðum svakalega flatir í seinni hálfleik og orkustigið var miklu hærra hjá þeim en okkur.“

Þór tapaði 21 bolta en það kom Lárusi ekkert á óvart sem Breiðablik gerði varnarlega í kvöld.

„Blikar komu hátt upp á völlinn en það er ekkert nýtt. Þeir voru ekki með neina töfra varnarlega heldur köstuðum við boltanum í hendurnar á þeim,“ sagði Lárus Jónsson að lokum.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.