Umfjöllun og viðtöl: Grótta - FH 27-30 | Fyrsti sigur FH-inga

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jakob Martin Ásgeirsson skoraði fimm mörk fyrir FH gegn Gróttu.
Jakob Martin Ásgeirsson skoraði fimm mörk fyrir FH gegn Gróttu. vísir/diego

FH vann sinn fyrsta sigur á tímabilinu þegar liðið lagði Gróttu að velli, 27-30, á Seltjarnarnesinu í 5. umferð Olís-deildar karla í kvöld.

FH-ingar voru þremur mörkum undir í hálfleik, 17-14, en sneru dæminu sér í vil í seinni hálfleik sem þeir unnu, 16-10. Vörn FH þéttist til muna í seinni hálfleik og þá rann hamur Phil Döhler í marki gestanna. Hann varði alls átján skot, eða fjörutíu prósent þeirra skota sem hann fékk á sig.

Birgir Már Birgisson, Jakob Martin Ásgeirsson og Ásbjörn Friðriksson skoruðu fimm mörk hvor fyrir FH og Einar Bragi Aðalsteinsson og Jón Bjarni Ólafsson sitt hvor fjögur mörkin.

Lúðvík Arnkelsson var markahæstur í liði Gróttu með sjö mörk. Ari Pétur Eiríksson og Theis Koch Søndergård komu næstir með fimm mörk hvor. Einar Baldvin Baldvinsson varði sautján skot (37 prósent).

Þrátt fyrir að vera án síns mikilvægasta manns, Birgis Steins Jónssonar, sem tók út leikbann í kvöld, léku Seltirningar án als oddi í fyrri hálfleik. Þeir voru alltaf með frumkvæðið og sóknarleikurinn gekk lengst af frábærlega.

Grótta skoraði ellefu mörk á fyrstu fjórtán mínútum fyrri hálfleiks og í stöðunni 11-7 tók Sigursteinn Arndal, þjálfari FH, leikhlé. Vörn FH-inga lagaðist aðeins eftir það en sóknin var enn stirð og Einar Baldvin reyndist gestunum erfiður.

Stíflan brast hins vegar undir lok fyrri hálfleiks þar sem mörkunum rigndi inn. Theis kom Gróttu fjórum mörkum yfir, 17-13, en Jakob Martin skoraði síðasta mark fyrri hálfleiks. Staðan að honum loknum var 17-14, Gróttu í vil.

Heimamenn voru áfram með yfirhöndina framan af seinni hálfleik en gestirnir nálguðust þá jafnt og þétt. Birgir jafnaði í 21-21 og kom svo FH yfir í fyrsta sinn í leiknum, 22-23. Grótta var í vandræðum með að skora á þessum kafla og Döhler var í miklum ham í marki FH.

Sóknarleikur FH braggaðist svo mjög eftir að Sigursteinn setti Ásbjörn í stöðu vinstri skyttu og Einar Örn Sindrason á miðjuna. FH-ingar voru líka duglegir að búa til góð færi á línunni og skoruðu alls sjö mörk þaðan í leiknum.

FH komst í góða stöðu þegar Birgir kom liðinu í 24-27 en Grótta svaraði með tveimur mörkum í röð, 26-27, og gat jafnað en skot Lúðvíks geigaði. Mörk frá Leonharð og Ásbirni komu FH-ingum svo aftur í lykilstöðu og þeir unnu á endanum þriggja marka sigur, 27-30. Með honum jafnaði FH Gróttu að stigum í deildinni en bæði lið hafa náð í fjögur stig.

Döhler: Svo kemur þetta koll af kolli

Phil Döhler varði fjörutíu prósent þeirra skota sem hann fékk á sig gegn Gróttu.vísir/diego

Phil Döhler varði átján skot í marki FH þegar liðið lagði Gróttu að velli í kvöld. Þýski markvörðurinn lét sig ekki muna um að svara spurningum blaðamanns á íslensku í leikslok.

„Þegar ég varði ekki í fyrri hálfleik hugsaði ég að það kæmi nýr leikur í þeim seinni og núna myndi ég gera meira og gera meira,“ sagði Döhler.

FH fékk á sig sautján mörk í fyrri hálfleik en aðeins tíu í þeim seinni. Döhler varði vissulega meira þá en vörn FH-inga var líka betri.

„Það kom meira frumkvæði og við mættum þeim betur í seinni hálfleik,“ sagði Döhler.

Sigurinn á Seltjarnarnesinu í kvöld var sá fyrsti á tímabilinu hjá FH en liðið var í fallsæti Olís-deildarinnar fyrir leikinn.

„Gústi Birgis hefur verið meiddur og Einar Bragi [Aðalsteinsson] er nýr í miðri vörninni. Ég er líka byrjaður að æfa að krafti. Svo kemur þetta koll af kolli,“ sagði Döhler að lokum.

Róbert: Hefðum unnið ef við hefðum nýtt helminginn af færunum okkar

Róbert Gunnarsson grét glötuð færi eftir leikinn.grótta

Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu, sagði að slæm færanýting hefði orðið hans mönnum að falli gegn FH í kvöld.

„Fljótt á litið datt Phil [Döhler] í stuð og gerði vel. Við fengum helling af flottum opnunum en klúðruðum dauðafærum. Það getur vel verið að ég sé að greina þetta eitthvað vitlaust en þetta var mín upplifun af leiknum. Í vörninni fórum við svo of framarlega og opnuðum fyrir aftan okkur. Þessa tvo punkta sé ég í fljótu bragði,“ sagði Róbert í leikslok.

Þrátt fyrir tapið var þjálfarinn afar ánægður með framlag Seltirninga í kvöld.

„Við spiluðum hörkuleik og enn og aftur var frábær stemmning í strákunum, mikil vinnsla og barátta. Þess vegna er svo sárt að tapa því þeir gerðu eiginlega allt sem ég bað þá um. Stundum skorar þú bara ekki úr dauðafærunum og það er erfitt að segja eitthvað við því,“ sagði Róbert. „Strákarnir berjast eins og ljón og það er geðveikt að vinna með þeim.“

Grótta spilaði stórvel í fyrri hálfleik og leiddi með þremur mörkum að honum loknum, 17-14.

„Liðsandinn var góður, flott hjálparvörn og gott flot í sókninni. Þeir voru í 6-0 vörn, við leystum það. Þeir fóru í 5-1 vörn, við leystum það. Fyrri hálfleikurinn var frábær en að sama skapi ekki nógu góður seinni hálfleikur. En ef við hefðum nýtt helminginn af færunum okkar hefðum við unnið leikinn, segi ég en það getur vel verið að FH-ingarnir séu ósammála,“ sagði Róbert að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir
    Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.