Handbolti

Leikhléið sem allir eru að tala um: „Mariam, þú ert gjörsamlega út á þekju“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannsson talar við Mariam Eradze í leikhléinu.
Ágúst Þór Jóhannsson talar við Mariam Eradze í leikhléinu. S2 Sport

Valskonur eru áfram ósigraðar á toppi Olís deildar kvenna í handbolta eftir sigur á Íslandsmeisturum Fram í gærkvöldi. Leikhlé Ágústs Þórs Jóhannssonar, þjálfara Vals, vöktu sérstaka athygli.

Valskonur byrjuðu leikinn ekki vel og voru fjórum mörkum undir, 4-8, þegar Ágúst tók leikhlé eftir tólf mínútna leik. Ágúst talaði hreina íslensku í þessu leikhléi og kveikti vel í sínu liði með beinskeyttum skilaboðum.

Hér fyrir neðan má sjá þetta leikhlé hjá Ágústi en hann beindi orðum sínum sérstaklega til lykilleikmannsins Mariam Eradze.

„Mariam, þú ert gjörsamlega út á þekju. Settu þig aðeins í stand,“ sagði Ágúst með útiröddinni við Mariam.

„Ef við spilum ekki f-g vörn þá gerum við ekki rassgat í þessu í dag,“ sagði Ágúst en lauk um leið reiðilestrinum og fór að tala um taktískar breytingar sem áttu eftir að ganga mjög vel.

Valskonur voru búnar að jafna metin í 10-10 eftir sex mínútna leik og voru síðan þremur mörkum yfir í hálfleik, 15-12. Fram komst aftur tveimur mörkum yfir í seinni hálfleik en Valskonur unnu lokakafla leiksins 10-2 og tryggðu sér fimm marka sigur, 27-22.

Klippa: Ágúst Þór Jóhannsson tók alvöru leikhlé



Fleiri fréttir

Sjá meira


×