Körfubolti

„Það er í raun mesti hausverkurinn fyrir mig að finna mínúturnar sem stelpurnar eiga skilið“

Atli Arason skrifar
Hörður Axel Vilhjálmsson er þjálfari Keflavíkur.
Hörður Axel Vilhjálmsson er þjálfari Keflavíkur. KKí/Kristinn Geir

Hörður Axel þjálfari Keflavíkur var sáttur með sigurinn í kvöld en sagði þó að það væri margt sem hann tæki út úr leiknum sem liðið gæti bætt.

„Þetta var gott. Sáttur með sigurinn, margt sem við getum tekið út úr þessum leik, jákvætt og neikvætt. Fullt sem að ég fann út að við getum bætt, og það er gott á þessum tímapunkti á tímabilinu.“

Keflavík lenti í örlitlum villuvandræðum í þriðja leikhluta, þar sem Karina Konstantinova fékk sína fjórðu villu og Birna Valgerður þriðju. Riðlaði þetta eitthvað leik liðsins?

„Nei það fannst mér ekki. Mér finnst við bara vera með það djúpt lið. Þær geta allar verið „aggressívar“ og geta allar lent í villuvandræðum. En það kemur þá bara næsta inn. Við erum með fullt af stelpum sem eru tilbúnar að koma inn á og eru hungraðar í að spila og ég hef engar áhyggjur af því þó ein eða tvær detti út.“

Talandi um djúpt lið. Keflavík rúllaði á 10 leikmönnum í kvöld, það hlýtur að hjálpa til þegar orkustigið er jafn hátt og það var í kvöld og vörnin keyrð áfram af mikilli ákefð í 40 mínútur?

„Já algjörlega. Þetta er eitthvað sem við höfum að mínu mati fram yfir önnur lið. Við erum að rótera 10 leikmönnum og það er í raun mesti hausverkurinn fyrir mig að finna mínúturnar sem stelpurnar eiga skilið. Sem er mjög jákvætt fyrir liðið og fyrir Keflavík en smá hausverkur fyrir mig.“

Keflavík eru nú eina taplausa liðið í deildinni og einar á toppnum. Verður partý í Keflavík í kvöld?

„Nei nei. Við höldum okkur alveg á jörðinni. Við vitum fyrir hvað við stöndum og vitum hvað við getum. Það eru bara þrír leikir búnir og endalaust eftir af þessu móti.“
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.