Körfubolti

Blikar kláruðu Grindavík á útivelli

Atli Arason skrifar
Isabella Ósk gerði 15 stig fyrir Breiðablik gegn Grindavík.
Isabella Ósk gerði 15 stig fyrir Breiðablik gegn Grindavík. Vísir/Diego

Breiðablik vann 12 stiga sigur á Grindavík suður með sjó í Subway-deild kvenna, 65-77.

Fyrsti leikhluti var jafn en Blikar voru þó með yfirhöndina lengst af og komust mest í níu stiga forskot en Grindvíkingar kláruðu leikhlutann betur sem lauk með jafntefli, 20-20.

Heimakonur í Grindavík voru betri í öðrum leikhluta. Forskotið sveiflaðist á milli liða en Grindvíkingar höfðu að endingu betur og fóru með tveggja stiga forskot inn í hálfleikinn í stöðunni 37-35.

Grindvíkingar náðu mest átta stiga forskoti í þriðja leikhluta áður en Breiðablik snéri leiknum sér í vil. Tíu stiga áhlaup gestanna varð til þess að Breiðablik leiddi með fjórum stigum fyrir síðasta fjórðunginn, 51-55.

Síðasti fjórðungur var eign gestanna sem bættu hægt og rólega í forskot sitt og unnu að lokum 12 stiga sigur, sem var mesti munur á milli liðanna í leiknum.

Sanja Orozovic, leikmaður Breiðabliks, var lang stigahæst í leiknum í kvöld en Sanja gerði 32 stig. Danielle Rodriguez var á sama tíma stigahæst hjá Grindavík með 16 stig.

Breiðablik og Grindavík eru jöfn í 5. og 6. sæti deildarinnar en bæði lið hafa nú unnið einn sigur eftir fyrstu tvær umferðarinnar. Næsti leikur Blika er á heimavelli gegn Fjölni þann 12. október á meðan Grindvíkingar fara í heimsókn til Hauka degi fyrr.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×