Skoðun

Til hamingju kennarar

Mjöll Matthíasdóttir skrifar

Kennarar! Til hamingju með daginn okkar.

Í dag 5. október er alþjóðadagur kennara. Dagurinn hefur verið haldinn hátíðlegur síðan 1994 að frumkvæði UNESCO, UNICEF og EI, alþjóðasamtaka kennara. Markmiðið er að beina sjónum að mikilvægi kennarastarfsins fyrir samfélög heimsins.

Yfirskrift dagsins í ár er “The transformation of education begins with teachers! Umbreyting menntunar hefst hjá kennurum”

Í ár er einnig sérstaklega vakin athygli á því að fleiri menntaða kennara vantar til starfa um heim allan. Það er því miður líka staðan hér á landi - á öllum skólastigum. Það er alvarleg staða og hún snertir samfélagið allt. Aðgerðir til að fjölga nemum í kennaranámi hafa skilað árangri en þrátt fyrir það vantar okkur miklu fleiri í hópinn.

Við eigum frábæra kennara í skólum landsins sem daglega mæta margvíslegum áskorunum í störfum sínum. Margt má betur fara í starfsaðstæðum þeirra. En í þessum hópi býr eldmóður og gróska. Nýlega var ég svo heppin að taka þátt í mennta viðburðinum Utís-online. Tvö þúsund kennarar hlýddu þar á útsendingu fjölda fyrirlestra, horfðu á kynningar á áhugaverðum verkefnum í íslenskum skólum og tóku þátt í umræðum. Síðar í þessari viku er haldin Menntakvika en þar verða fluttir yfir 200 fyrirlestrar um uppeldis- og menntamál. Allir kennararnir sem taka þátt í þessum viðburðum bera svo nýjar hugmyndir heim á sinn starfsvettvang. Það er svo þar sem töfrarnir gerast!

Við sem samfélag þurfum að hlúa að kennurunum okkar - þannig verður til framúrskarandi skólastarf, nemendum til heilla.

Kennarasamband Íslands heldur í dag skólamálaþing undir yfirskriftinni “Fögnum fjölbreytileikanum í skólanum”. Hægt er að fylgjast með þinginu í streymi sem nálgast má á vef KÍ klukkan 15.

Verða kennarar á vegi þínum í dag? Það er tilvalið að óska þeim til hamingju með daginn.

Höfundur er grunnskólakennari og tekur við formennsku í félagi grunnskólakennara 18. október.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.