Handbolti

Íslendingalið Kolstad úr leik eftir tap í vítakastkeppni | Teitur og félagar örugglega áfram

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Janus Daði Smárason skoraði fjögur mörk í svekkjandi tapi Kolstad í kvöld.
Janus Daði Smárason skoraði fjögur mörk í svekkjandi tapi Kolstad í kvöld. Kolstad

Janus Daði Smárason, Sigvaldi Björn Guðjónsson og félögum þeirra í norska liðinu Kolstad tókst ekki að tryggja sér sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar í handbolta eftir tap í vítakastkeppni gegn spænska liðinu Bidusoa Irun í kvöld.

Spænska liðið vann fyrri leik liðanna með þriggja marka mun, 30-27, og því var ljóst að Íslendingaliðið þyrfti að snúa taflinu við.

Janus og Sigvaldi áttu báðir flottan leik fyrir Kolstad í kvöld og voru meðal markahæstu manna liðsins. Sigvaldi skoraði sjö fyrir heimamenn og Janus fjögur er liðið tryggði sér þriggja marka sigur í venjulegum leiktíma, 28-25.

Staðan í einvíginu var því jöfn 55-55 og því þurfti að grípa til vítakastkeppni til að skera úr um sigurvegarann. Janus og Sigvaldi tóku báðir víti og skoruðu báðir, en það voru að lokum gestirnir sem höfðu betur, 6-5, og eru því á leið í riðlakeppni Evrópudeildarinnar á meðan Íslendingalið Kolstad situr eftir með sárt ennið.

Á sama tíma tryggðu Teitur Örn Einarsson og félagar hans í Flensburg sér sæti í riðlakeppninni þegar liðið vann 13 marka sigur gegn MMTS Kwidzyn, 37-24. Flensburg vann fyrri viðureignina 39-25 og fer því örugglega áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×