Handbolti

Haukur og félagar hafa unnið 75 deildarleiki í röð

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Haukur Þrastarson og félagar hans í Kielce eru ekkert mikið hrifnir af því að tapa.
Haukur Þrastarson og félagar hans í Kielce eru ekkert mikið hrifnir af því að tapa. EPA-EFE/GEIR OLSEN

Haukur Þrastarson og félagar hans í pólska stórliðinu Kielce hafa ekki lagt í vana sinn að tapa mörgum deildarleikjum undanfarin ár. Liðið hefur nú unnið 75 leiki í röð í pólsku úrvalsdeildinni í handbolta eftir 21 marks stórsigur gegn Gwardia Opole, 42-21.

Liðið hefur ekki tapað deildarleik í pólsku úrvalsdeildinni síðan 9. október árið 2019. Það verða því slétt þrjú ár frá seinasta tapleik liðsins í deildinni eftir nákvæmlega viku, en liðið tapaði seinast gegn Wisla Plock, 27-26.

Kielce hefur reyndar gert tvö jafntefli í þessum 75 deildarsigrum þeirra í röð, en pólska deildin virkar þannig að spilað er til þrautar. Sigur gefur þrjú stig, sigur eftir framlengingu tvö, tap í framlenginu gefur eitt stig og að lokum eru engin stig gefin fyrir tap í venjulegum leiktíma.

Kielce vann í bæði skiptin í framlengingu sem liðið gerði jafntefli á þessum tíma og því má með góðri samvisku segja að liðið hafi verið að vinna sinn 75. deildarleik í röð.

Haukur Þrastarson kom við sögu í leik dagsins, en komst ekki á blað. Kielce trónir á toppi pólsku deildarinnar með fullt hús stiga eftir fimm leiki, en bæði Wisla Plock og Wybrzeze Gdansk eiga leik til góða og eru einnig með fullt hús stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×