Umfjöllun og viðtöl: Valur - Stjarnan 80-77 | Valur Meistarar meistaranna eftir spennuleik

Árni Jóhannsson skrifar
Valur eru meistarar meistaranna 2022
Valur eru meistarar meistaranna 2022 Vísir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

Íslandsmeistarar Vals og bikarmeistarar Stjörnunnar áttust við í leiknum sem markar upphaf keppnistímabilsins í körfubolta karla hér á landi. Valsmenn báru sigur úr býtum í kaflaskiptum en spennandi leik 80-77. Kristófer Acox lokaði leiknum af vítalínunni þegar stutt var eftir.

Það voru Valsmenn sem byrjuðu leikinn betur í kvöld og náðu upp betri og meiri ákafa í varnarleik sínum en gestirnir úr Garðabænum. Með varnarleiknum kom góður sóknarleikur og voru þeir komnir í 15-8 forskot um miðbik fyrsta leikhluta. Þá tók Stjarnan við sér og átti flottan lokakafla í leikhlutanum og jafnaði metin 19-19 þegar flautan gall. Varnarleikur þeirra var betri og sóknarleikurinn fylgdi í kjölfarið. 

Í öðrum leikhluta var það sama upp á tengingnum. Það er að segja Valsmenn mættu ákveðnari til leiks áður en Stjarnan tók við sér og kom sér aftur inn í leikinn. Það sem var öðruvísi hinsvegar er að liðin skiptu tvisvar á því að vera betri aðilinn í öðrum leikhluta. Valsmenn tóku völdin þegar um þrjár mínútur voru eftir af hálfleiknum og voru með níu stiga forskot 43-34 þegar þrjár mínútur voru eftir. Stjörnumenn sættu sig náttúrlega ekki við að vera svona mikið undir og náðu fínum sprett en náðu ekki lengra en fimm stigum fyrir aftan Valsmenn sem leiddu 46-41 þegar gengið var til búningsklefa. 

Saga fyrri hálfleiksins var að það lið sem náði upp takti varnarlega náði að gera sér mat úr því og þar sem Valsmenn voru fyrri til þess þá leiddu þeir í hálfleik.

Hart var barist í kvöld og menn óhræddir við að keyra á körfunaVÍSIR / Bára Dröfn Kristinsdóttir

Í upphafi seinni hálfleik frysti í teig beggja liða þannig að hittni þeirra var nánast engin. Það var alveg sama hvað var reynt, ofan í vildi boltinn ekki. Þegar fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleik þá var staðan 4-2 fyrir Val í hálfleiknum og 49-43 en þá náðu Stjörnumenn að dúndra niður tveimur þriggja stiga körfum í röð og sprengdu þar með leikinn upp. Jafnt var á nánast öllum tölum það sem lifði af þriðja leikhluta og leikstjórnendur liðanna, Pablo Bertone og Robert Turner III, voru í aðalhlutverki. Þegar leikhlutanum var lokið var staða 60-60 og allt í járnum.

Menn voru farnir að þreytast, bersýnilega, þegar hér var komið við sögu og verður fjórða leikhluta þessa leiks seint minnst fyrir áferðarfallegan körfubolta. Það skipti þó engu máli þar sem við vorum að leita að spennandi leik og það fengum við. Bæði lið skiptust á að vinna boltann og tapa honum. Taka stutta skor spretti og eiga góðar runur varnarlega og jafnt var á muninum allan tímann. Þegar um 40 sekúndur voru eftir af leiknum kom Adama Darboe Stjörnunni einu stigi yfir og bekkurinn hjá Val fékk að auki tæknivillu þar sem einhver orð voru látin falla. Darboe setti niður vítið og kom gestunum í 75-77. 

Valsmenn fóru í sókn og eftir mikið drippl frá Frank Booker opnaðist þriggja stiga færi fyrir Ozren Pavlovic sem þakkaði pent fyrir sig og negldi niður þristinum. 78-77 og Stjörnumenn fóru í sókn en Turner III gerðist sekur um sóknarbrot og Valsmenn áttu boltann. Brotið var á Kristófer Acox, sem axlaði fyrirliða ábyrgð sína og skoraði úr tveimur vítaskotum og þá voru ekki nema fjórar sekúndur eftir. Lokaskot Stjörnumanna geigaði, mig grunar að Turner III hafi átt að fá knöttinn en varnarleikur Valsmanna var góður og því fór sem fór. Valsmenn fögnuðu sigri og eru Meistarar meistaranna árið 2022.

Kristófer Acox smellir kossi á ný unninn málmVísir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

Afhverju vann Valur?

Í raun og veru var það seiglan í liði Vals sem skilaði sigrinum. Þeir eru mjög gott varnarlið og á köflum náðu þeir að loka á Stjörnuna í sóknaraðgerðum sínum. Tvö vítaskot frá Kristófer Acox í lok leiksins hjálpa síðan til við verkið.

Hvað næst?

Nú byrjar alvaran og þessi lið mætast hér á Hlíðarenda á fimmtudaginn næsta kl. 20:15 og þá verður fróðlegt að sjá hvernig leikar fara.

Arnar: Skoðum hvað við getum gert betur

Baráttuna vantaði ekki í leikinn en Stjarnan hefði þurft að passa betur upp á boltann að mati þjálfara liðsins.Vísir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

„Heilt yfir töpuðum við of mikið af boltum í leiknum og þeir skoruðu allt of mikið af auðveldum stigum í fyrri hálfleik“, sagði Arnar Guðjónsson þjálfari Stjörnunnar eftir leik í kvöld.

„Við eigum eftir að skoða leikinn betur en við vorum að flækja hlutina aðeins fannst mér, svolítið staðir. Varnarlega vorum við lélegir í fyrri hálfleik en fínir í seinni eða þannig er tilfinningin núna“, sagði Arnar þegar hann var spurður út í það hvað hann lærði um sína menn í kvöld. Hann var því næst spurður hvort hluti af útskýringunni væru nýjir leikmenn liðsins.

„Nei nei, við vorum ekki góðir í dag en Valsmenn góðir. Þeir voru heilt yfir betri í dag fannst mér. Það er bara recovery núna og svo erum við að fara að mæta hérna aftur fimmtudaginn. Skoðum hvað við getum gert betur og ætlum að gera betur þá.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira