Enski boltinn

Grealish tilbúinn að djamma með Souness ef Pogba fær að koma með

Atli Arason skrifar
Paul Pogba, Graeme Souness og Jack Grealish. Þríeykið sem gæti verið á leiðinni saman út á lífið á næstunni.
Paul Pogba, Graeme Souness og Jack Grealish. Þríeykið sem gæti verið á leiðinni saman út á lífið á næstunni. Samsettt/Getty Images

Jack Grealish, leikmaður Manchester City, og Graeme Souness, sparkspekingur og fyrrum leikmaður Liverpool, hafa eldað grátt silfur saman síðustu vikur með ummælum sínum í fjölmiðlum.

Souness hefur verið gagnrýninn á leikstíl Grealish en Souness telur Grealish ekki spila boltanum nógu oft á samherja. Souness gagnrýnir einnig lífsstíl Grealish utan vallar en Grealish hefur reglulega komist í fréttirnar vegna athafna utan knattspyrnuvallarins.

„Ég er ekki viss um að ég gæti haldið í við hann en ég myndi samt elska að fara út á lífið með honum,“ sagði Souness á talkSPORT.

Grealish svaraði ummælum Souness, um að kíkja út á lífið saman, á Twitter. Þar skrifaði Grealish að hann væri spenntur fyrir því, eins lengi og hann fengi að taka Paul Pogba með sem auka gest en Souness hefur verið einn helsti gagnrýnandi Paul Pogba undanfarin ár.

Souness svaraði Grealish þar sem hann sagði að enski leikmaðurinn mætti taka hvern sem er með sér eins lengi og Grealish borgaði reikninginn.

Grealish hafði áður svarað gagnrýni Souness um leikstíl sinn en Grealish sagðist þá hlusta á Pep Guardiola, knattspyrnustjóra City, frekar en Greaeme Souness.

„Ég veit ekki hvað hans vandamál með mig er. Hann [Souness] er alltaf að tala um mig. Þegar ég er að spila fyrir knattspyrnustjóra eins og Pep Guardiola og hann segir mér að halda í boltann eins lengi og ég get, þá mun ég gera það,“ sagði Jack Grealish, leikmaður Manchester City.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×