Handbolti

Magnús Óli: Öflugur varnarleikur lykillinn að þessum sigri

Hjörvar Ólafsson skrifar
Magnús Óli Magnússon skoraði fjögur mörk á sínum gamla heimavelli. 
Magnús Óli Magnússon skoraði fjögur mörk á sínum gamla heimavelli.  Vísir/Diego

Magnús Óli Magnússon var sáttur við spilamennsku Valsliðsins þegar liðið vann sannfærandi sigur gegn FH í þriðju umferð Olís deildar karla í handbolta í Kaplakrika í kvöld. 

„Við náðum upp góðri vörn í upphafi beggja hálfleikja og bjuggum til þægilega forystu. Við vorum allir fókuseraðir í verkefnið og margir leikmenn sem áttu gott kvöld. Við vorum að grýta okkur í alla bolta og Bjöggi varði vel," sagði Magnús Óli aðspurður um hvað hefði lagt grunninn að sigrinum. 

„Róbert Aron er búinn að vera veikur í vikunni og var aðeins slappur. Þá jókst aðeins ábyrgðin á mér. Arnór Snær og Benedikt Gunnar voru flottir og Agnar Smári átti góða innkomu. Við vorum bara heilt yfir góðir í þessum leik," sagði skyttan enn fremur. ´

„Það slitnaði aðeins á milli okkar undir lok fyrri hálfleiksins og mér fannst 5-1 vörnin ekki alveg vera að virka. Við náðum hins vegar að þétta varnarleikinn aftur og fækka tæknifeilum í byrjun seinni hálfleiks," sagði þessi klóki leikmaður sem skoraði fjögur mörk fyrir Val. 

Magnús Óli fór meiddur af velli um miðjan seinni hálfleikinn en hann sagði þau meiðsli ekki alvarleg: „Ég fékk bara högg á kjálkann og fékk smá hausverk. Þetta er samt allt í góðu og ekkert til að hafa áhyggjur af, Ég er ferskur og fínn í kjálkanum," sagði hann um meiðslin. 

„Við erum búnir að vinna fyrstu þrjá leikina og ég er bara sáttur við spilamennskuna í þessum leikjum. Það eru fullt af spennandi verkefnum fram undan og ég er bara mjög spenntur fyrir því sem bíður okkar," sagði Magnús Óli um framhaldið. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×