Umfjöllun og viðtöl: Grótta - Stjarnan 29-28 | Grótta vann á Nesinu

Kristín Björk Ingimarsdóttir skrifar
Birgir Steinn Jónsson var drjúgur fyrir Gróttu.
Birgir Steinn Jónsson var drjúgur fyrir Gróttu. vísir/hulda margrét

Grótta og Stjarnan áttust við á Seltjarnarnesi í Olís-deild karla í kvöld. Leikurinn var hnífjafn bróðurpart leiksins en áræðni Gróttumanna sigldi þessu heim. Lokatölur 29-28.

Stjarnan byrjaði leikinn betur og komu sér í fjögurra marka forystu á fyrstu mínútum leiksins. Eftir tíu mínútna leik var Grótta búin að jafna og eftir það var allt í járnum.

Liðin skiptust á að taka eins mark forystu en þegar um stundarfjórðungur var liðin leiddi Stjarnan með tveimur mörkum 8-10. Þá gaf Grótta í og jafnaði leikinn. Leikurinn var jafn það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en Stjarnan leiddi með einu þegar liðin gengu til klefa í hálfleik, 13-14. 

Bæði lið héldu uppteknum hætti í seinni hálfleik. Þegar um stundarfjórðungur var liðin var staðan 21-21. 

Loka mínútur leiksins voru æsispennandi, staðan var 27-27 þegar um mínútu var eftir. Þá kemur Theis Koch Søndergård Gróttu yfir. Starri Friðriksson, leikmaður Stjörnunnar átti misheppnað skot og aftur skorar Theis Koch Søndergård. Staðan 29-27. Brynjar Hólm Grétarsson náði að minnka muninn niður í eitt mark áður en flautað var til leiksloka. Lokatölur 29-28. 

Afhverju vann Grótta?

Á þessum lokamínútum leiksins hefði þetta allt eins geta fallið með Stjörnunni en það virtist sem Grótta hafi verið þyrstari í sigur. Þeir börðust fram á lokasekúndu leiksins og uppskáru þennan eins marks sigur. 

Hverjir stóðu upp úr?

Hjá Gróttu voru Andri Þór Helgason og Theis Koch Søndergård með sjö mörk hvor. Birgir Steinn Jónsson var virkilega góður í dag, kastaði sér hvað eftir annað á boltann og skoraði fimm mörk. 

Það var einn maður sem mætti til leiks hjá Stjörnunni í kvöld og það var hann Björgvin Þór Hólmgeirsson sem skoraði 12 mörk. 

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Stjörnunnar var slakur. Björgvin sá algjörlega einn um að skora mörkin og var með 12 mörk á meðan næst markahæstu menn voru með þrjú mörk. Það segir sig sjálft að það er ekki hægt að kasta þessu á einn mann. 

Hvað gerist næst?

Fimmtudaginn 29. september kl 19:30 sækir Grótta Aftureldingu hein. Föstudaginn 30. september kl 19:30 fær Stjarnan Hauka í heimsókn. 

Patrekur Jóhannesson: „Við klikkuðum á einföldum atriðum í restina“

Patrekur Jóhannesson var ósattur með úrslit kvöldsins.Vísir/Hulda Margrét

„Ég er ennþá svekktur og ósáttur með mitt lið. Við byrjum ágætlega eða vel, við komumst í 4-0 og spilum vörnina vel. Við erum aggressívir og erum að brjóta mikið. Við erum síðan klaufar að ná ekki stærra forskoti í fyrri hálfleik en síðan er þetta jafn leikur,“ sagði Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar, svekktur eftir eins marks tap á Gróttu í kvöld 

„Sóknarlega erum við ekki nægilega sterkir í dag, of mikið þar sem að menn treysta bara á Björgvin og það er ekki planið. Síðan er ég bara ósáttur, við erum tveimur mörkum yfir, lítið eftir og það koma skrítnir dómar og annað eins og oft er í þessum. Við vorum ekki nógu klókir og gerum síðan mjög barnaleg mistök varnarlega þar sem við hleypum Birgi Steini inn á átta metrana, sem við gerðum ekki í fyrri hálfleik og ég er óánægður með það.“

Patrekur sagði að varnarleikurinn hafi verið góður heilt yfir en að það þurfi að virkja fleiri leikmenn í sóknarleikinn. 

„Þetta var svona svipað eins og á móti Fram. Á móti FH spiluðum við fínan sóknarleik en núna í dag var þetta bara Bjöggi sem var áræðin og þorði en ég náði ekki að virkja fleiri leikmenn og ég þarf að kíkja á það. Varnarleikurinn var góður þangað til í lokin, í svona jöfnum leik skipta öll atriði máli og við klikkuðum á einföldum atriðum í restina.“

Patrekur er ósáttur með tapið í dag en ætlar að skoða betur hvernig er hægt að virkja fleiri leikmenn sóknarlega. 

„Ég er ennþá ósáttur og allir í liðinu eru ósáttir að tapa. En við þurfum að laga þennan sóknarleik og ég er með mjög góða leikmenn svo að það er eitthvað sem ég þarf að skoða og ég þarf að koma þeim í gang. Ég þarf að hugsa betur hvernig ég get hjálpað þeim að komast í betri stöðu því að það er mjög erfitt og óeðlilegt að ég nái ekki að virkja fleiri.“


Tengdar fréttir

„ Við erum allir keppnismenn en núna erum við allir mjög glaðir“

„Mér líður náttúrulega bara mjög vel og nú féll þetta okkar megin. Þetta var alveg eins, næstum því, fyrir viku síðan á móti Selfossi og þá féll þetta ekki með okkur. Það var mjög þung vika og erfitt að tapa, við erum allir keppnismenn en núna erum við allir mjög glaðir. Við ætlum að njóta í kvöld en þetta er langhlaup,“ sagði Róbert Gunnarsson, þjálfari Gróttu, eftir sigur á Stjörnunni í kvöld. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira