Skoðun

Söfn og dagur íslenskrar náttúru

Björk Þorleifsdóttir skrifar

Dagur íslenskrar náttúru er 16. september. Á þeim degi er söfnum hollt og mikilvægt að minna sig á að þau eiga ekki að vera og geta ekki verið hlutlaus þegar kemur að umhverfismálum. Það á að vera okkur ljúft og skylt að fræða safngesti um hvaða hættur steðja að okkar eina heimili, Jörðinni, og hvað við getum gert til þess að snúa af braut eyðileggingarinnar og stefna þess í stað rakleiðis í áttina að sjálfbærni og bættum heimi – ekki bara fyrir mannfólkið heldur fyrir allar lífverur. Það á að vera sjálfsagt hlutverk okkar að hvetja safngesti til góðra verka og við þurfum að muna að margt smátt gerir eitt stórt – einstaklingurinn skiptir alltaf máli, hversu lítil sem okkur finnst við vera!

Í Grasagarðinum stóðum við fyrir fræðslunni „Byrjum heima að bjarga jörðinni“ núna síðsumars á samfélagsmiðlum. Þar var í máli, myndum og myndböndum bent á leiðir til þess að vera umhverfisvænni en tilgangurinn var ekki síst að hvetja fólk til að vera meðvitaðri neytendur fyrir líffræðilega fjölbreytni og að setja upp náttúruskoðunargleraugun hvort sem við erum í manngerðu umhverfi eða úti í náttúrunni.

Allt í kringum okkur leynist náttúra; túnfífill brýst upp úr brotnu malbiki í miðborginni. Við lítum á hann sem illgresi en hann er samt sem áður að hreinsa andrúmsloftið fyrir okkur – hann tekur upp koltvíoxíð og gefur frá sér súrefni og við græðum! Sniglarnir á salatinu okkar eru mikilvægar niðurbrotsverur og geitungurinn sem er að pirra okkur núna hreinsaði fallegustu rósina í garðinum af blaðlúsum fyrr í sumar svo núna njótum við blómgunarinnar.

Í safni eins og Grasagarðinum búa ótal lífverur fyrir utan þessar 5.000 sem teljast safngripirnir okkar – Grasagarðurinn er svo sannarlega lifandi safn. Á degi íslenskrar náttúru lítum við til hins óskráða á safninu: sveppanna sem eru svo áberandi á þessum árstíma. Við kíkjum á ætisveppi, niðurbrotssveppi og skoðum svepprótakerfi undir trjám – samlífiskerfi sem gerir trjánum kleift að tala við önnur tré.

Við vonum að íbúar landsins nýti dag íslenskrar náttúru til að gera eitthvað náttúrunni til hagsbóta og vonumst auðvitað til að sjá sem flesta í hádegisgöngu hjá okkur á slaginu 12 í Grasagarðinum þennan dag.

Höfundur er verkefnastjóri fræðslu og miðlunar hjá Grasagarði Reykjavíkur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.