Handbolti

Sjáðu hvernig Ómar og Gísli kláruðu Dinamo Búkarest með magnaðri fótafimi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk í Búkarest.
Ómar Ingi Magnússon skoraði sex mörk í Búkarest. getty/Frederic Scheidemann

Ómar Ingi Magnússon og Gísli Þorgeir Kristjánsson voru markahæstir hjá Magdeburg þegar þýsku meistararnir unnu Dinamo í Búkarest, 28-30, í 1. umferð riðlakeppni Meistaradeildar Evrópu í handbolta í gær.

Ómar skoraði sex mörk og Gísli fimm. Þeir félagar fóru hvað eftir annað illa með varnarmenn Dinamo og plötuðu þá ótt og títt upp úr skónum.

Íslensku landsliðsmennirnir voru sérstaklega drjúgir undir lokin. Gísli kom Magdeburg í 26-28 með marki eftir að hafa brotist í gegnum miðja vörn Dinamo. Rúmenarnir minnkuðu muninn í næstu sókn en Ómar svaraði með marki eftir gegnumbrot, 27-29.

Þegar tæp hálf mínúta var eftir kláraði Gísli leikinn svo endanlega þegar hann skoraði þrítugasta mark Magdeburg eftir að hafa gabbað Frakkann reynda, Cedric Sorhaindo, sem réði ekkert við Hafnfirðinginn í leiknum.

Helstu tilþrifin úr leik Dinamo og Magdeburg má sjá í spilaranum hér fyrir neðan. Vakin er sérstök athygli á marki Ómars á 1:27 mínútu í myndbandinu.

Magdeburg er með í Meistaradeildinni eftir nokkurra ára fjarveru. Liðið varð þýskur meistari á síðasta tímabili og endaði í 2. sæti bikarkeppninnar og EHF-bikarsins.

Ómar var valinn besti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili og hefur haldið uppteknum hætti í vetur.

Næsti leikur Magdeburg í Meistaradeildinni er gegn Zagreb á heimavelli á fimmtudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×