Viðskipti innlent

Gagn­rýna hækkun hæstu á­fengis­skatta í Evrópu

Árni Sæberg skrifar
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda.
Ólafur Stephensen er framkvæmdastjóri Félags atvinnurekanda. Vísir/Vilhelm

„Ríkisstjórnin hjálpar ekki til í baráttunni við verðbólguna þegar hún bætir í gjöld sem hækka almennt verðlag,“ segir framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda um hækkun áfengisgjalda í nýjum fjárlögum.

Í nýjum fjárlögum, sem kynnt voru í morgun, er gert ráð fyrir að almennt áfengisgjald hækki um 7,7 prósent og að áfengisgjald í fríhafnarverslunum hækki um 150 prósent, úr 10 prósent af almennu áfengisgjaldi í 25 prósent.

Félagi atvinnurekenda líst ekki á blikuna, ef marka má tilkynningu á vef félagsins. Þar má sjá samantekt því hversu mikið einstakar tegundir áfengis munu hækka í smásölu, bæði í fríhöfn og í vínbúðinni.

Þar segir að kassi af vinsælu léttvíni mun þannig hækka um 600 krónur í Vínbúðinni og bjórkippa um tæplega 150 krónur, en eins lítra ginflaska um 663 krónur. Í Fríhöfninni gæti ginflaskan hækkað um 2.300 krónur og léttvínskassinn um 1.800 krónur.

Á myndinni hér að neðan má sjá dæmi um það hvernig verð breytist milli ára í vínbúð og hvernig það skiptist niður. „Vekja má athygli á því að ríkið tekur í sinn hlut 92,3% af útsöluverði vodkaflöskunnar, 73,4% af verði kassavínsins og 61% af verði bjórflöskunnar,“ segir í tilkynningu Félags atvinnurekenda.

Félag atvinnurekenda

Snúnara að reikna út verð í fríhöfn

„Ef litið er á líklegar verðbreytingar í Fríhöfninni er ögn snúnara að reikna dæmið þar sem álagning hennar er ekki föst og lögbundin eins og hjá ÁTVR,“ segir í tilkynningunni.

Jafnframt sé það ekki heildsalinn eða framleiðandi áfengisins sem standi skil til ríkissjóðs á áfengisgjaldinu áður en varan er afhent Fríhöfninni, heldur greiði Fríhöfnin það eftir á.

Á myndinni hér að neðan má sjá raunhæf dæmi, sem Félag atvinnurekenda hefur tekið saman, um líklegar verðbreytingar í Fríhöfninni.

Félag atvinnurekenda

„Hér má sjá að léttvínskassi sem kostar í dag um 5.000 krónur gæti hækkað um rúmlega 1.800 krónur og ginflaska á svipuðu verði um hátt í 2.300 krónur. Léttvínsflaska sem í dag kostar tæplega 2.300 krónur gæti hækkað um 300 krónur og bjórkippa, sem í dag selst á tæplega 1.700 krónur gæti hækkað um 237 krónur,“ segir í tilkynningunni.

Rengja staðhæfingar um óbreytt gjöld

Félag atvinnurekenda gefur lítið fyrir þær fullyrðingar fjármálaráðuneytisins í greinargerð fjárlagafrumvarpsins þess efnis að gjöld haldi verðgildi sínu milli ára í stað þess að rýrna enn frekar að raunvirði eins og þau hafi mörg gert undanfarin ár.

„Þar segir jafnframt að þessi gjöld hafi verið „óbreytt frá árinu 2019“. Í tilviki áfengisgjaldsins er þetta alrangt; það hefur verið hækkað árlega og nemur uppsöfnuð hækkun þess 16% frá 2019 til 2023, miðað við frumvarpið,“ segir í tilkynningunni.

Skattlagning komin út úr korti

Í tilkynningunni segir að í greinargerð fjárlagafrumvarpsins sé áætlað að skattahækkunin skili 1,64 milljarða tekjuhækkun í ríkissjóð og tekjur af áfengisgjaldi verði 25,5 milljarðar á næsta ári.

„Ríkisstjórnin hjálpar ekki til í baráttunni við verðbólguna þegar hún bætir í gjöld sem hækka almennt verðlag. „Skattlagning á áfenga drykki á Íslandi er löngu komin út úr öllu korti og bitnar til dæmis hart á samkeppnisstöðu ferðaþjónustunnar. Við höfum oft kallað eftir rökstuðningi fyrir því að þessir skattar eigi að vera svona miklu hærri en í nágrannalöndum okkar, en komum þar ævinlega að tómum kofunum hjá stjórnmálamönnum,“ er haft eftir Ólafi Stephensen, framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda, í tilkynningu félagsins.


Tengdar fréttir

Hækka gjald á á­fengi og tóbak

Gert er ráð fyrir að hækka gjald á áfengi og á tóbak sem selt er í tollfrjálsum verslunum, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun. Gert er ráð fyrir að hækkunin skili sér í tekjum fyrir ríkissjóð upp á 700 milljónir króna.

Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.