Gert er ráð fyrir að hækkunin skili sér í tekjum fyrir ríkissjóð upp á 700 milljónir króna.Vísir/Vilhelm
Gert er ráð fyrir að hækka gjald á áfengi og á tóbak sem selt er í tollfrjálsum verslunum, samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun. Gert er ráð fyrir að hækkunin skili sér í tekjum fyrir ríkissjóð upp á 700 milljónir króna.
Í frumvarpinu segir að áfengi og tóbak sem selt sé í tollfrjálsum verslunum beri lægra vörugjald en í öðrum verslunum hérlendis. Á áfengi sé nú lagt 10 prósent af áfengisgjaldi á söluna og á tóbak sé lagt 40 prósent af tóbaksgjaldi á söluna.
„Til stendur að draga úr afslætti í tollfrjálsum verslunum þannig áfengisgjald fari úr 10% í 25% og tóbaksgjald úr 40% í 50% af því sem almennt gildir.
Samanlagt leiðir þessi tekjuöflun til 0,7 ma.kr. hækkunar á áætlun áfengis- og tóbaksgjalds,“ segir í frumvarpinu.
Áætlaðar tekjur af áfengisgjaldi á næsta ári eru um 25,5 milljarðar króna og af tóbaksgjaldi um 5,8 milljarðar króna.
Fjárlagafrumvarp ríkisstjórnarinnar gerir ráð fyrir 89 milljarða króna hallarekstri ríkissjóðs á næsta ári. Heildarútgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 1.296,5 milljarðar á árinu 2023, sem er hækkun um 78,5 milljarða frá fjárlögum fyrra árs.
Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.