Íþróttadeild Vísis og Stöðvar 2 Sports spáir fyrir um gengi liðanna í Olís-deild kvenna en keppni í deildinni hefst í dag, fimmtudaginn 15. september.
Íþróttadeild spáir Val 1. sæti Olís-deildar kvenna í vetur og að liðið verði deildarmeistari í þriðja sinn á síðustu sex árum.
Eftir síðasta tímabil, þar sem Valur lenti í 2. sæti í deild og úrslitakeppninni og vann bikarkeppnina, fór Lovísa Thompson út í atvinnumennsku. Skarð hennar verður vandfyllt enda sennilega besti alhliða leikmaður Olís-deildarinnar.
En þrátt fyrir það virkar Valsliðið óárennilegt og líklegast til afreka í vetur. Það er aðallega vegna breiddarinnar sem ekkert annað lið í Olís-deildinni hefur yfir að ráða. Valur er nánast með tvo leikmenn í hverri stöðu og Ágúst Jóhannsson, þjálfari liðsins, getur skipt mikið án þess að það veikist.
Stærsta, og í raun eina, spurningarmerkið er hver verður endakallinn í Valsliðinu. Lovísa var með það hlutverk í Val en hver tekur við því nú þegar hún er farin? En kannski er breiddin og hæfileikarnir í Valsliðinu það miklir að það reynir ekki mikið á það, allavega ekki í deildakeppninni.
Gengi Vals undanfarinn áratug
- 2021-22: 2. sæti+úrslit+bikarmeistari
- 2020-21: 3. sæti+úrslit
- 2019-20: 2. sæti
- 2018-19: Deildarmeistari+Íslandsmeistari+bikarúrslit
- 2017-18: Deildarmeistari+úrslit
- 2016-17: 6. sæti
- 2015-16: 5. sæti+átta liða úrslit
- 2014-15: 6. sæti+átta liða úrslit+bikarúrslit
- 2013-14: 2. sæti+Íslandsmeistari+bikarmeistari
- 2012-13: Deildarmeistari+undanúrslit+bikarmeistari
Lykilmaðurinn

Eftir brotthvarf Lovísu stendur Thea Imani Sturludóttir eftir sem besti og mikilvægasti leikmaður Vals. Hún býr yfir eiginleikum sem engin önnur í Olís-deildinni býr yfir; getur stokkið upp langt fyrir utan, hangið í loftinu að því er virðist endalaust og skotið fastar en flestar. Hlutirnir virka svo auðveldir fyrir Theu að manni finnst hún geta skorað í hverri sókn og maður svekktir sig stundum á því að hún geri ekki meira. Og hún þarf að gera meira í vetur og vera kostur númer eitt í Valssókninni.
Félagaskiptamarkaðurinn
Komnar:
- Sigríður Hauksdóttir frá HK
- Sara Dögg Hjaltadóttir frá Gjerpen (Noregi)
- Hrafnhildur Anna Þorleifsdóttir frá FH
- Ásdís Þóra Ágústsdóttir frá Lugi (Svíþjóð)
Farnar:
- Lovísa Thompson til Ringköbing (Danmörku)
- Hulda Dís Þrastardóttir til Selfoss
- Ragnheiður Sveinsdóttir til Hauka
- Saga Sif Gísladóttir ólétt
Markaðseinkunn (A-C): B
Fylgist með
Sara Dögg Hjaltadóttir er hálfgerð huldumanneskja í íslenskum handbolta enda hefur hún spilað í Noregi allan sinn meistaraflokksferil. En hún er nú komin heim og margir bíða spenntir eftir því að sjá hvað hún gerir í Olís-deildinni. Sara, sem er 22 ára, mun væntanlega deila leikstjórnandastöðunni hjá Val með Elínu Rósu Magnúsdóttur og saman ættu þær að mynda pottþétt teymi.