Handbolti

„Geggjað að vinna KA“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúnar Sigtryggsson predikaði þolinmæði í hálfleik.
Rúnar Sigtryggsson predikaði þolinmæði í hálfleik. vísir/sigurjón

Rúnar Sigtryggsson stýrði Haukum til sigurs í fyrsta leik sínum sem þjálfari liðsins. Staðan í hálfleik gegn KA var jöfn, 11-11, en Haukar stigu á bensíngjöfina í upphafi seinni hálfleiks og náðu þá forskoti sem þeir létu ekki af hendi.

„Þetta var frekar erfitt í byrjun og sóknarleikurinn var ekki góður af okkar hálfu. En síðasta korterið völdum við betri færi þótt sóknin hafi ekki verið góð. Við komumst í vörn og fengum bara tvö mörk á okkur síðasta korterið,“ sagði Rúnar eftir leik.

„Í seinni hálfleik nýttum við svo þessar varnir og spiluðum aðeins hraðari og betri sóknarleik.“

Í hálfleik brýndi Rúnar fyrir sínum mönnum að vera þolinmóðir og yfirvegaðir.

„Við þurftum að gefa okkur meiri tíma. Þetta eru markagráðugir strákar fyrir utan og þeir nýttu alltaf fyrsta færið og biðu ekkert eftir betra færi sem kæmi ef til vill seinna. Þeir læra af því en spiluðu samt vel. Boltinn var hraður og þeir hafa ekki verið mikið saman. Þetta lofaði góðu á margan hátt,“ sagði Rúnar.

Hann viðurkennir að sér hafi ekki leiðst að vinna KA, verandi Þórsari.

„Nei, það er geggjað,“ sagði Rúnar léttur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×