Skoðun

Að ári liðnu - Efndir í umhverfismálum?

Tinna Hallgrímsdóttir skrifar

Nú er ár liðið síðan Ungir umhverfissinnar kynntu Sólina, einkunnagjöf fyrir umhverfis- og loftslagsmál í stefnum stjórnmálaflokkanna í aðdraganda Alþingiskosninga 2021. Með kvarðanum var vonin sú að flokkarnir ykju metnað sinn í umhverfismálum og að öll, ung sem aldin, tækju upplýsta ákvörðun er komið væri í kjörklefann. Niðurstöðurnar voru birtar hér og spönnuðu einkunnirnar nánast allan skalann af þeim 100 stigum sem í boði voru fyrir 78 stefnumál sem UU fannst nauðsynlegt að flokkarnir hefðu í stefnum sínum. Öllum er þó ljóst að það sem ratar í stefnu flokks fyrir kosningar er ekki endilega það sem fer í framkvæmd á kjörtímabilinu. Því munu Ungir umhverfissinnar fylgja Sólinni eftir með Tunglinu; mati á því hvernig flokkunum hefur tekist að framfylgja þeim stefnumálum sem sett voru fram í kvarðanum.

Tunglið mun því hvetja flokkana til að standa við gefin orð, og vonandi gera enn betur. Með Tunglinu vilja Ungir umhverfissinnar tryggja að kjörnir fulltrúar geti horft til baka í lok kjörtímabils og sagt með fullvissu að þeir hafi gert allt sem í sínu valdi stóð til að stuðla að farsæld okkar, komandi kynslóða og þeirra lífvera sem deila með okkur Jörðinni. Næstu ár eru nefnilega lykilár í baráttu okkar við hamfarahlýnun og hrun líffræðilegs fjölbreytileika og þau skref sem eru tekin núna munu hafa afdrifaríkar afleiðingar langt inn í framtíðina. Góðu fréttirnar eru að fjölmörg málefni úr kvarða Sólarinnar hafa á bak við sig meirihluta þings, sé gert ráð fyrir að kjörnir fulltrúar séu samkvæmir stefnu síns flokks. Samvinna um umhverfismálin liggur því í augum uppi, en eðli málsins samkvæmt eru umhverfismálin hvorki staðsett til hægri, vinstri né á miðjunni á hinum pólitíska ás.

Nú fer Alþingi að koma saman eftir sumarfrí og er því tímabært fyrir flokkana að dusta rykið af stefnum sínum og hrinda í framkvæmd þeim umhverfisaðgerðum sem við þurfum svo sannarlega á að halda. Við fylgjumst spennt með, enda er framtíð okkar í þeirra höndum.

Höfundur er forseti Ungra umhverfissina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×